Framkvæmd og innleiðing

Á þessari síðu er að finna upplýsingar um framkvæmd og innleiðingu Dembra. Með gátlistanum hér að neðan er skólinn leiddur í gegnum fimm stig þróunarstarfsins: Kynningu, rannsóknarvinnu, val á úrræðum, innleiðingu og mat. Fyrir neðan gátlistann er að finna ítarlegar lýsingar á hverju stigi fyrir sig, upplýsingar fyrir Dembra-hóp skólans og upplýsingar um skólafundi.

Til að nota gátlistann er krafist innskráningar.

Þú verður að vera skráð(ur) inn til að nota gátlistann.

  • 1 Kynning

    Skólinn hefur ákveðið að taka þátt í Dembra. Hver eru næstu skref?

    Skólinn þarf:

    1. Að festa verkefnið formlega í sessi í skólastarfinu með upplýsingum og samtali við kennara og annað starfsfólk, nemendur, foreldra og aðra sem málið varðar
    2. Að stofna Dembra-hóp með kennurum og stjórnendum sem skipuleggja verkefnið og halda utan um það
    3. Að setja upp dagatal fyrir rannsóknarvinnu, skólafundi og aðra þætti
    4. Að setja upp fundaáætlun með Dembra-leiðbeinanda

     

    1. Þátttaka skólans í Dembra fest formlega í sessi

    Ef Dembra á að gagnast skólanum þarf að vekja áhuga sem allra flestra á verkefninu. Til að festa Dembra formlega í sessi í skólastarfinu þarf að taka markmið og meginreglur Dembra til umræðu með ýmsum hópum innan skólans. Mesta áherslu skal leggja á opið og ítarlegt samtal við kennara og annað starfsfólk, en einnig er mikilvægt að festa verkefnið formlega í sessi hjá nemendum og foreldrum.

    Lykilhópar þegar verkefnið er fest í sessi:

    • Starfsfólk (kennarar og aðrir)
    • Nemendur
    • Foreldrar/foreldrafélög
    • Eigendur/rekstraraðilar skólans
    • Aðrir tengdir aðilar: samstarfsaðilar í hverfinu, samstarfsskólar og aðrir aðilar

    Stjórnendur skólans taka endanlega ákvörðun um þátttöku í Dembra en til að festa verkefnið almennilega í sessi þarf að fá alla tengda aðila til samstarfs áður en ákvörðun er tekin og gefa þeim einnig færi á að hafa áhrif eftir að ákvörðun hefur verið tekin.

    Í Dembra getur hver skóli skilgreint hvaða áskoranir sem tengjast útilokun og andúð á tilteknum hópum hann vill vinna með. Því er mikilvægt að gefa ólíkum hópum kost á að leggja fram óskir sínar og tillögur. Til að tryggja áhuga og þátttöku er lykilatriði að allir aðilar finni að þeir geti haft áhrif á Dembra-verkefnið.

    2. Stofnun Dembra-hóps innan skólans

    Skólinn stofnar Dembra-hóp sem tekur að sér að skipuleggja forvarnarstarfið. Hópurinn ber ábyrgð á samhæfingu, upplýsingamiðlun og þátttöku starfsfólks á öllum stigum verkefnisins.

    Í Dembra-hópnum eiga að vera fulltrúar bæði stjórnenda og kennara skólans. Mælt er með því að í hópnum séu kennarar af ólíkum skólastigum og að komið sé upp öruggum og góðum tengslum við alla árganga og fagsvið skólans. Einnig kemur til greina að hafa nemendur í hópnum.

    Hópurinn velur sér tengilið sem ber ábyrgð á samskiptum við Dembra-leiðbeinanda skólans. Tengiliðurinn getur einnig gegnt hlutverki hópstjóra en skólanum er einnig frjálst að skipuleggja hópinn með öðrum hætti.

    Upplýsingar um nafn, stöðu, netfang og símanúmer allra hópmeðlima eru sendar til Dembra-leiðbeinanda.

    Dembra-hópnum ber að hittast reglulega til að ræða og skipuleggja verkefnið. Í annasamri skólaviku getur reynst auðveldara að halda marga stutta fundi heldur en lengri fundi og færri. Það er hins vegar mikilvægt að skólastjórnendur veiti Dembra-hópnum nægan tíma og svigrúm til að sinna starfi sínu. Á flipanum Dembra-hópurinn er að finna tillögur að skipulagi á starfi hópsins.

    Dembra-hópurinn ber einnig ábyrgð á því að miðla nýjum upplýsingum um framgang verkefnisins til starfsfólks skólans. Hópurinn þarf að gæta þess að miðla reglulega upplýsingum um Dembra á sameiginlegum vinnustundum kennara, t.d. með því að segja í stuttu máli frá þróun verkefnisins.

    Gátlistarnir á þessum síðum eru verkfæri Dembra-hópsins. Hópurinn ber s.s. meginábyrgð á framkvæmd atriðinna á listanum og sér um að merkja við þau.

    3. Innleiðingardagatal

    Þegar Dembra-hópurinn hefur verið stofnaður byrjar hópurinn á að tímasetja verkefni á gátlistanum og velja dagsetningar á dagatalinu í „Dembra-árið okkar“.

    Eftirfarandi verkefni ætti að tímasetja strax:

    • Námskeið með starfsfólki um áskoranir og úrræði skólans (skólafundur 1)
    • Spurningalisti lagður fyrir eða önnur upplýsingaöflun framkvæmd
    • Fundur með fulltrúum nemenda

    Æskilegt er að hópurinn ákveði sem flestar dagsetningar sem fyrst. Skólinn getur til dæmis ákveðið dagsetningar allra starfsmannafunda [hlekkur] og annarra aðgerða sem tengjast forvarnarstarfinu.

    Dembra snýst um að skólinn setji í gang forvarnaraðgerðir að eigin vali. Þetta getur bæði falist í áframhaldandi þróun fyrirliggjandi úrræða og í nýjum úrræðum. Allar aðgerðir eru skráðar í Dembra-dagatalið en fyrir hverja þeirra þarf einnig eigin tímaáætlun með upplýsingum um lokadagsetningar og aðra áfanga. Nánari upplýsingar er að finna í kaflanum um Dembra-áætlunina [hlekkur].

    4. Fundaráætlun með Dembra-leiðbeinanda

    Utanaðkomandi Dembra-leiðbeinandi aðstoðar Dembra-hópinn á innleiðingartímabilinu. Tengiliður Dembra-hópsins ber meginábyrgð á samskiptum við leiðbeinandann og samskiptin byggjast einkum á tölvupóstum og símtölum. Allur hópurinn fær leiðbeiningar á fundum eða netfundum eftir þörfum, þó að lágmarki við eftirfarandi tilefni:

    • Þegar Dembra-verkefnið er sett í gang í skólanum
    • Þegar allri upplýsingaöflun er lokið. Þegar fram fer greining og umræður um aðstæður í skólanum og um gögn úr upplýsingaöflun. Fyrstu umræður um möguleg áherslusvið.
    • Þegar áherslusvið hafa verið ákveðin (eða drög að þeim liggja fyrir). Þegar áherslusvið eru fínstillt og endurskoðuð og í fyrstu umræðum um hugsanleg verkefni.
    • Þegar fyrstu drög að Dembra-áætlun liggja fyrir. Þegar áætlunin er fínstillt og endurskoðuð.
    • Þegar fyrstu úrræðin hafa verið innleidd í skólanum. Þegar meta þarf starfið og endurskoða áætlanir fyrir frekari innleiðingar.

    Dembra-hópurinn ákveður tímasetningar þessara funda í samráði við leiðbeinanda strax á upphafsstigi verkefnisins. Fundina skal færa inn í Dembra-dagatalið.

  • 2 Spurningalisti og önnur upplýsingaöflun

    Upplýsingaöflunin í Dembra felst í þrenns konar aðgerðum: Spurningalista eða annars konar upplýsingaöflun sem snýr að nemendum, námskeiði með kennurum og fundi með fulltrúum nemenda.

    Það tekur u.þ.b. fimmtán mínútur að svara spurningalistanum og það gera bæði nemendur, kennarar og stjórnendur. Könnunin er nafnlaus og farið er með niðurstöður úr hverjum skóla sem trúnaðarmál.

    Með spurningalistanum fæst mynd af því hvernig svarendur upplifa þátttöku nemenda í ákvarðanatöku í skólanum, hvernig brugðist er við ólíkum skoðunum og hversu mikið er um fordóma í skólanum. Svörin eru höfð til hliðsjónar þegar skólinn ákvarðar sín áherslusvið í Dembra-verkefninu.

    Í stórum dráttum eru sömu spurningar lagðar fyrir kennara og nemendur, en kennarar fá auk þess nokkrar bakgrunnsspurningar.

    Í grunnskólum þar sem öllum árgöngum er kennt svara kennarar allra bekkja spurningalistanum en nemendur á yngsta stigi eru undanskildir. Þess í stað er mælt með því að kennarar yngstu nemendanna ræði við þá um vellíðan í skólanum, útilokun og það að vera öðruvísi.

    Spurningalisti fyrir nemendur

    Nemendum er tryggð algjör nafnleynd og því þarf að ekki að afla leyfis hjá foreldrum/forráðamönnum. Við mælum engu að síður með því að foreldrar fái bæði almennar upplýsingar um Dembra-verkefnið og um spurningalistann. Ef foreldrar óska eftir því að börn þeirra taki ekki þátt í könnuninni er sjálfsagt að verða við því. Foreldrar geta einnig fengið að skoða spurningalistann ef þess er óskað.

    Spurningalisti fyrir kennara og stjórnendur

    Kennarar og stjórnendur ráða því sjálfir hvort þeir taka þátt í könnuninni. Þó er von okkar sú að starfsfólk taki þátt til að könnunin myndi góðar grunnforsendur fyrir starfið framundan. Gögnin eru varin með nafnleynd að könnun lokinni.

  • 3 Námskeið fyrir starfsfólk

    Námskeiðið fyrir starfsfólk er hluti af upplýsingaöflun um þarfir skólans og það auðveldar skólanum að velja áherslusvið við hæfi. Markmiðið með námskeiðinu er að kennarar og annað starfsfólk geti rætt ítarlega og opinskátt um helstu áskoranir skólans sem tengjast viðfangsefni Dembra. Með námskeiðinu gefst einnig tækifæri til að kynna Dembra-hópinn fyrir starfsfólki skólans.

    Opin skoðanaskipti

    Mikilvæg grunnforsenda á námskeiðinu er að fjallað sé skýrt um umfang þeirra viðfangsefna sem liggja fyrir, frekar en að hugarfari starfsfólksins sé beint í tiltekinn farveg strax í upphafi. Lýðræðisleg menning og forvarnir vegna andúðar á tilteknum hópum eru helstu viðfangsefni Dembra en út frá þeim er hægt að ræða ótal önnur viðfangsefni: Kynþáttafordóma, gyðingahatur, múslimahatur, aðrar gerðir fordóma, öfgahyggju og innrætingu öfgaskoðana, hatursorðræðu, orðaval, klíkumyndanir í skólanum, þátttöku allra nemenda, nemendavirkni eða önnur viðfangsefni.

    Ábyrgð Dembra-hópsins

    Dembra-hópurinn ber ábyrgð á námskeiðshaldinu en fær Dembra-leiðbeinanda skólans til að taka þátt ef honum er það fært. Hópurinn sér einnig um að safna saman og vinna úr niðurstöðum námskeiðsins til notkunar síðar þegar hópurinn kynnir tillögur sínar að áherslusviðum skólans.

    Fundarskipulag (tillaga)

    1. hluti – Upplýsingar um Dembra

    • PowerPoint
      • Kynning á helstu viðfangsefnum og bakgrunni Dembra; kynning á forvarnarreglum Dembra
      • Kynning á aðgerðadagatali
      • Umfjöllun um hlutverk Dembra-hópsins

      Ef Dembra-leiðbeinandinn er í forsvari á námskeiðinu gæti verið gott að fjalla um rannsóknir sem tengjast einhverjum lykilviðfangsefnum Dembra, jafnvel vinna verkefni eða gera æfingar. Dembra-hópurinn getur stungið upp á viðfangsefnum sem hann vill fjalla um. Einnig kemur til greina að bjóða gestafyrirlesurum að fjalla um tiltekin viðfangsefni.

    2. hluti – Hópavinna

    1. Hverjum hópi eru úthlutaðar nokkrar meginreglur til umfjöllunar.
    2. Umræður fara fram í hópum og þátttakendur deila sinni reynslu af bæði styrkleikum og áskorunum skólans. Hér að neðan er að finna umræðuspurningar. Hóparnir skrá niður minnispunkta, á blað eða í tölvu.
    3. Gefið ykkur tíma til að ganga á milli og deila hugmyndum. Ef minnispunktarnir eru skriflegir geta kennararnir gert skriflegar athugasemdir hver hjá öðrum.
    4. Ef niðurstöður spurningalistans liggja fyrir er hægt að kynna niðurstöðurnar og fjalla um þær. Hvað getum við lært af niðurstöðum spurningalistans?
    5. Dembra-hópurinn safnar blöðunum saman eða fær senda minnispunkta úr hópavinnunni. Þessar upplýsingar notar hópurinn til að móta áherslusvið skólans og Dembra-áætlunina

    Umræðuspurningar:

    1. a) Hvaða áskorunum stendur skólinn frammi fyrir hvað varðar umburðarleysi og andúð á tilteknum hópum?
      b) Hvaða úrræði hefur skólinn til að mæta þessum áskorunum?
      c) Hvert ætti að vera markmiðið með þátttökunni í Dembra?
      d) Hvernig er hægt nýta meginreglur Dembra og niðurstöður úr spurningalistanum hvað varðar t.d.:
      Námsáætlanir
      Aðgerðaáætlanir
      Ársáætlanir/skóladagatalið
      Reglur skólans
      Önnur svið
  • 4 Fundur með fulltrúum nemenda

    Til að festa Dembra-verkefnið í sessi hjá nemendunum er hér lögð fram tillaga að skipulagi nemendafundar. Skólinn ákveður sjálfur hvort fundinn sitja fulltrúar í nemendaráði eða aðrir nemendur skólans. Skólinn ákveður, í samráði við Dembra-leiðbeinandann, hvort leiðbeinandinn eða skólinn sjálfur sjái um fundinn.

    Fundur með fulltrúum nemenda er hluti af upplýsingaöflun verkefnisins. Fundinn skal halda eftir að skólinn hefur fengið niðurstöður spurningalistans í hendur svo hægt sé að ræða niðurstöðurnar við fulltrúa nemenda. Með hliðsjón af eigin upplifun og umræðum nemenda skal fundurinn skila af sér endurgjöf og tillögum sem starfsfólki skólans ber að taka til greina í starfinu framundan. Þannig er Dembra-verkefnið fest í sessi hjá bæði nemendum og kennurum í samræmi við meginreglur Dembra um samfélag fyrir alla, þátttöku og formlegt framkvæmdarferli. Hægt er að líta á fundinn með nemendum sem upphafið að frekari þátttöku þeirra í ferlinu.

    Reiknið með að fundurinn taki a.m.k. klukkutíma, helst meira. Hér er tillaga okkar að skipulagi fundarins:

    • Hvað er Dembra?
      Nemendur fá kynningu á Dembra-verkefninu og hvað það felur í sér.
    • Hvað er „góður skóli“?
      Nemendur eru beðnir um að lýsa hinum fullkomna skóla með eigin orðum.
    • Hvernig er staðan í þínum skóla?
      Nemendur lýsa núverandi stöðu mála í skólaumhverfinu.
    • Hvaða segir spurningalistinn okkur?
      Fulltrúar nemenda fá tækifæri til að ræða niðurstöður spurningalistans og gera athugasemdir við þær.
    • Hvernig vilja nemendur vinna með Dembra?
      Nemendur leggja fram tillögur að frekari aðgerðum út frá eigin mati á niðurstöðum Dembra-spurningalistans og umræðum um þær.
  • 5 Áherslusvið valin

    Skólinn tekur ákvörðun um áherslusvið sín í forvarnarstarfinu með hliðsjón af þeim upplýsingum sem upplýsingaöflunin skilaði. Áherslusviðin eiga að mæta einhverjum þeirra áskorana sem upplýsingaöflunin leiddi í ljós. Þau mynda auk þess grunn að frekari umræðu um viðeigandi forvarnaraðgerðir, hvort sem það eru nýjar aðgerðir eða endurbætur á fyrirliggjandi úrræðum.

    Leiðsögn

    Vinnan með áherslusviðin fer annars vegar fram með leiðsagnarlotum og hins vegar með sjálfstæðu starfi Dembra-hópsins.

    1. Fyrsta leiðsagnarlota

    Í þessari lotu fara Dembra-hópurinn og leiðbeinandi yfir niðurstöður upplýsingaöflunarinnar: Spurningalistann, fundinn með fulltrúum nemenda og námskeiðið með kennurum. Með þessar niðurstöður til hliðsjónar tökum við fyrsta samtalið um áherslusvið skólans.

    2. Dembra-hópurinn þróar áherslusvið

    Hópurinn ræðir áherslusviðin nánar. Tillögur hópsins þarf að festa í sessi með umræðum innan deilda/skólastiga í skólanum. Þegar hópurinn hefur komist að samkomulagi eru áherslusviðin sett inn á síðuna „Dembra-árið okkar“. [hlekkur]

    3. Önnur leiðsagnarlota

    Í þessari lotu er fjallað um nánari útfærslu áherslusviða og mögulega forgangsröðun. Auk þess fer fram umræða um viðeigandi úrræði innan áherslusviða.

    4. Ákvörðun um áherslusvið

    Áður en endurskoðuð áherslusviðin eru sett á síðuna „Dembra-árið okkar“ þarf Dembra-hópurinn að fá staðfestingu á þeim hjá stjórnendum skólans. [hlekkur]

  • 6 Umræður um Dembra-aðgerðir innan deilda/skólastiga

    Skólinn hefur nú tekið ákvörðun um nokkur áherslusvið í forvarnarstarfinu sem tengist andúð á tilteknum hópum. Hvaða áherslusvið er þegar verið að vinna með? Hvað má gera á annan hátt? Hvaða nýju úrræði vill skólinn prófa að nota?

    Þessar spurningar þarf að ræða á ólíkum sviðum innan skólans. Við mælum með því að árgangahópar, deildir eða faghópar ræði a.m.k. sín á milli hvort þau vilji sjálf grípa til aðgerða innan þeirra áherslusviða sem skólinn ákvað.

    Hver hópur eða deild getur rætt um aðgerðir á ólíkum stigum. Ein leiðin er að fara eftir kennsluáætluninni á dembra.no eða nýta sér önnur úrræði sem tengjast áherslusviðinu. Þar mætti nefna úrræði til að auka færni kennaranna sjálfra, yfirferð kennsluefnis/námsbóka eða aðgerðir sem lúta að skóla án aðgreiningar eða gagnrýninni hugsun.

    Hver hópur ætti einnig að velta fyrir sér úrræðum sem snerta skólastarfið í heild sinni. Þetta geta verið verkefni sem þegar hafa komið til framkvæmda í skólanum eða tillögur að nýjum verkefnum. Sem dæmi má nefna endurskoðun á reglum skólans eða aðgerðaáætlun gegn niðurlægjandi hegðun/einelti. Hugsanlega er við hæfi að endurskoða eða ræða fyrirkomulag vinaviku, skólaferða og annarra viðburða, hátíðisdaga, foreldrafunda o.s.frv.

    Dembra-hópurinn ber ábyrgð á því að safna saman hugmyndum frá hópum/deildum og öðrum aðilum, ef við á, og halda framkvæmd verkefnisins gangandi. Tillögur að úrræðum sem eiga aðeins við tiltekna árganga/faghópa (t.d. námsáætlanir eða verkefni) má setja beint inn í Dembra-áætlunina (sjá næsta lið). Tillögur sem varða önnur skólastig eða skólann í heild sinni þurfa að koma til umræðu hjá Dembra-hópnum og viðeigandi aðilum (stjórnendum skólans, nemendaráði, foreldraráði).

  • 7 Lokið við Dembra-áætlun

    Dembra-áætlunin á að vera samantekt úrræða sem tengjast þeim áherslusviðum sem skólinn tók ákvörðun um. Áætlunin getur bæði falið í sér fyrirliggjandi úrræði og ný úrræði.

    Hér er hægt að sækja áætlunina: word pdf

    Dembra-hópurinn mótar áætlunina en skólastjórnendur þurfa að staðfesta endanlega útgáfu hennar.

    Þegar Dembra-hópurinn hefur lagt fram tillögu að áætlun er skipulögð leiðsagnarlota með leiðbeinandanum, annaðhvort á netinu eða á fundi.

    Fimm atriði til að hafa í huga

    1. Áherslusviðin:Úrræðin sem hópurinn leggur verða að mæta áskorunum eða þörfum sem tengjast áherslusviðum skólans.

    2. Dembra-meginreglurnar:Hvaða forvarnir felast í úrræðunum? Hægt er að nota Dembra-meginreglurnar til viðmiðunar um það hvaða þættir hafa forvarnaráhrif og jafnvel hvernig best er að útfæra úrræði. Notið meginreglurnar sem umræðupunkta þegar rætt er um úrræði: Dregur úrræðið úr aðgreiningu? Stuðlar það að gagnrýninni hugsun?

    3. Ólík stig: Freistið þess að leggja til úrræði á ólíkum stigum skólastarfsins, allt frá sjálfri kennslunni og símenntun kennara til skólastjórnenda og langtímaáætlana. Hér er að finna ítarlegra lesefni um ólík stig skólans.

    4. Fyrirliggjandi úrræði: Dembra-áætlunin á ekki aðeins að fela í sér ný úrræði heldur einnig úrræði sem þegar eru fyrir hendi í skólanum. Þau er hægt að þróa nánar á forsendum Dembra-meginreglnanna.

    5. Tímarammi: Sumum úrræðum má hrinda hratt í framkvæmd, önnur taka lengri tíma. Áætlunin rúmar báðar gerðir og því er ekki þörf á eiginlegri lokadagsetningu.

    Á flipanum Dembra-hópurinn er að finna tillögu að dagskrá fundar þar sem hópurinn vinnur drög að Dembra-áætlun. Ef skólinn kýs að nota fundarformið í þessu verkefni hefst þessi vinna á fyrsta hópafundinum.

    Textareitirnir í áætluninni

    Úrræði

    Hér er því lýst í hverju úrræðið felst. Þetta getur verið nýtt úrræði eða fyrirliggjandi úrræði innan skólans sem tengist áherslusviðinu. Úrræði getur verið umfangsmikið eða smátt í sniðum. Dæmi um umfangsmikið úrræði gæti verið þróun nýrrar áætlunar um sálfélagslegt umhverfi skólans, en dæmi um smærra úrræði gæti falist í vaktalista yfir umsjón kennara með matsal nemenda.

    Meginreglur Dembra

    Hér kemur fram hverri af fimm meginreglum Dembra þið teljið að úrræðið tengist. Úrræði getur tengst fleiri en einni meginreglu. Úrræði má ekki stríða gegn neinni meginreglu, enda myndi það benda til þess að úrræðið hefði ekki forvarnargildi.

    Væntar niðurstöður

    Hægt er að bera væntar niðurstöður saman við raunniðurstöður þegar lagt er mat á það hvort úrræðið heppnaðist vel, hvort þurfi að endurskoða það eða jafnvel leggja það af. Reynið að finna skýra niðurstöðu sem þið viljið að viðkomandi úrræði skili. Er markmiðið að tiltekinn fjöldi foreldra mæti á fundi foreldrafélagsins? Eða hversu margir foreldrar merkja fundinn með broskalli eftir að honum lýkur? Er markmiðið að kennurunum sjálfum finnist kennslufyrirkomulag sitt vel heppnað – eða að nemendurnir lýsi yfir ánægju sinni með kennslufyrirkomulagið?

    Þátttakendur

    Hverjir taka þátt í úrræðinu? Eru það allir nemendur skólans eða ákveðinn árgangur? Kennarar eða stjórnendur?

    Ábyrgðaraðili

    Hér er skráð hver ber ábyrgð á framkvæmd úrræðisins. Tilgreinið annaðhvort nafn einstaklings eða heiti starfandi hóps innan skólans, t.d. 10. bekkjar-teymi. Sá einstaklingur eða hópur sem hér er skráður ber ábyrgð á skipulagningu og framkvæmd úrræðisins. Því er mikilvægt að allir sem málið varðar geri sér skýra grein fyrir ábyrgð sinni.

    Dembra-hópurinn eða einstaklingar í honum geta tekið ábyrgð á úrræði, en skólastjórnendur geta einnig fengið aðra starfsmenn til að gera það sem sérverkefni.

    Skrásetning

    Hvernig ætlar hópurinn að skrásetja úrræði sem hrint er í framkvæmd? Með einfaldri, skriflegri skýrslu? Með frétt á heimasíðu skólans? Með færslu á samfélagsmiðlum? Eða annars konar skrásetningu?

    Hafið í huga að úrræðin sem hópurinn velur að fá leiðsögn um þarf að skrásetja á sérstökum eyðublöðum (sjá næsta lið). Önnur úrræði er hópnum frjálst að skrásetja eftir eigin hentugleika.

  • 8 Úrræði framkvæmd og leiðsögn þegin

    Þegar skólastjóri hefur samþykkt Dembra-áætlunina er hinum ólíku úrræðum hrint í framkvæmd. Það ræðst af eðli og umfangi hvers úrræðis hvernig að því er staðið. Dæmi um úrræði sem fremur auðvelt er að hrinda í framkvæmd er notkun efnis af dembra.no. Endurskoðun á eineltisáætlun skólans er hins vegar dæmi um úrræði sem kallar á flóknara ferli. Fyrir umfangsmeiri úrræði þarf að notast við sérstaka verkefnishópa, framvinduáætlanir og lokadagsetningar. Tímarammann þarf að endurskoða í samræmi við umfangið og hann getur náð yfir fleiri en eitt skólaár.

    Sumum úrræðum þarf þó að hrinda í framkvæmd á þeim tíma sem skólinn er tengdur Dembra. Þetta geta verið tvö eða þrjú afmörkuð úrræði úr Dembra-áætluninni sem rætt er um á fundi leiðbeinanda með Dembra-hópnum. Dembra-hópurinn ákveður í samráði við leiðbeinandann hver þessi úrræði eru.

    Dembra-hópurinn undirbýr leiðsagnarlotuna með stuttri skýrslu um hvert þeirra úrræða þar sem leiðsagnar er óskað. Hægt er að nota skýrslueyðublaðið sem hér er að finna. [hlekkur]

  • 9 Færniþjálfun starfsfólks

    Dembra-hópurinn ber ábyrgð á því að starfsfólk skólans fari í gegnum þá færniþjálfun sem er hluti af Dembra-verkefninu. Nánari lýsingu á starfsmannafundum er að finna á flipanum Dagskrá skólafunda. Skólar sem vinna Dembra-verkefnið á netinu geta nýtt sér PowerPoint-skjölin og lýsingarnar á þessum síðum. Skólar sem byggja starfið á fundum geta fengið heimsókn Dembra-leiðbeinenda sem halda námskeið fyrir starfsfólk skólans.

    Markmiðið með fundunum er:

    • að deila reynslu af styrkleikum og áskorunum skólans þegar kemur að vinnunni með lýðræði og forvarnarstarf í tengslum við andúð á tilteknum hópum
    • að vinna með þátttöku allra, gagnrýna hugsun og fjölmenningarfærni sem meginreglur í forvarnarstarfi
    • að koma auga á færnimarkmið þar sem hægt er að vinna með þessar meginreglur
    • að fara yfir nokkrar viðeigandi æfingar og skoða námsefnið á dembra.no

    Á flipanum Dagskrá skólafunda er að finna ítarlegri lýsingu.

  • 10 Mat og aðlögun vegna framtíðarverkefna

    Á lokafundi sínum vinnur Dembra-hópurinn ítarlegt mat og sendir Dembra-leiðbeinanda sínum samantekt. Hópurinn skoðar einnig hvernig hægt er að halda forvarnarstarfi áfram innan skólans.

    Fyrir þennan fund er æskilegt að skólinn haldi þriðja skólafundinn og fái þangað gestafyrirlesara/leiðbeinanda. Á þessum fundi tekur allt starfsfólk skólans þátt í matsferlinu og kennarar geta lagt fram tillögur um framhald starfsins og lagfæringar á því á grundvelli meginreglna Dembra í forvarnarstarfi.

    Hér er tillaga að fyrirkomulagi matsfundarins:

    Mat lagt á verkefnið hingað til. Hvaða úrræði gengu vel/illa

    • Skoðið þau úrræði sem skólinn hefur unnið með (Dembra-áætlunin): Hvernig hafa úrræðin virkað? Höfum við nálgast markmiðin með úrræðunum eða ekki?
    • Hvernig hafa verkefnin styrkt vinnuna með meginreglur Dembra?

    Hvernig getum við haldið áfram að styrkja forvarnarstarfið?

    • Hvaða úrræði viljum við halda áfram með – og hvernig? Er eitthvað sem við viljum bæta?
    • Hvernig er staðan í skólanum í dag? Hafa komið fram nýjar þarfir og jafnvel nýjar hugmyndir um forvarnarstarf sem byggir á meginreglum Dembra?

    Mat lagt á faglegt starfsumhverfi skólans

      • Hvernig gengur samstarfið á milli kennara og kennara/stjórnenda þegar kemur að framkvæmd úrræða? Hvað er hægt að bæta? Hvernig getum við styrkt úrræða- og framkvæmdagetu skólans?
      • Dembra-hópurinn fær senda minnispunkta úr matsferlinu.

       

      Sjá dagskrártillögu að 5. fundi Dembra-hópsins.