Skólinn hefur ákveðið að taka þátt í Dembra. Hver eru næstu skref?
Skólinn þarf:
- Að festa verkefnið formlega í sessi í skólastarfinu með upplýsingum og samtali við kennara og annað starfsfólk, nemendur, foreldra og aðra sem málið varðar
- Að stofna Dembra-hóp með kennurum og stjórnendum sem skipuleggja verkefnið og halda utan um það
- Að setja upp dagatal fyrir rannsóknarvinnu, skólafundi og aðra þætti
- Að setja upp fundaáætlun með Dembra-leiðbeinanda
1. Þátttaka skólans í Dembra fest formlega í sessi
Ef Dembra á að gagnast skólanum þarf að vekja áhuga sem allra flestra á verkefninu. Til að festa Dembra formlega í sessi í skólastarfinu þarf að taka markmið og meginreglur Dembra til umræðu með ýmsum hópum innan skólans. Mesta áherslu skal leggja á opið og ítarlegt samtal við kennara og annað starfsfólk, en einnig er mikilvægt að festa verkefnið formlega í sessi hjá nemendum og foreldrum.
Lykilhópar þegar verkefnið er fest í sessi:
- Starfsfólk (kennarar og aðrir)
- Nemendur
- Foreldrar/foreldrafélög
- Eigendur/rekstraraðilar skólans
- Aðrir tengdir aðilar: samstarfsaðilar í hverfinu, samstarfsskólar og aðrir aðilar
Stjórnendur skólans taka endanlega ákvörðun um þátttöku í Dembra en til að festa verkefnið almennilega í sessi þarf að fá alla tengda aðila til samstarfs áður en ákvörðun er tekin og gefa þeim einnig færi á að hafa áhrif eftir að ákvörðun hefur verið tekin.
Í Dembra getur hver skóli skilgreint hvaða áskoranir sem tengjast útilokun og andúð á tilteknum hópum hann vill vinna með. Því er mikilvægt að gefa ólíkum hópum kost á að leggja fram óskir sínar og tillögur. Til að tryggja áhuga og þátttöku er lykilatriði að allir aðilar finni að þeir geti haft áhrif á Dembra-verkefnið.
2. Stofnun Dembra-hóps innan skólans
Skólinn stofnar Dembra-hóp sem tekur að sér að skipuleggja forvarnarstarfið. Hópurinn ber ábyrgð á samhæfingu, upplýsingamiðlun og þátttöku starfsfólks á öllum stigum verkefnisins.
Í Dembra-hópnum eiga að vera fulltrúar bæði stjórnenda og kennara skólans. Mælt er með því að í hópnum séu kennarar af ólíkum skólastigum og að komið sé upp öruggum og góðum tengslum við alla árganga og fagsvið skólans. Einnig kemur til greina að hafa nemendur í hópnum.
Hópurinn velur sér tengilið sem ber ábyrgð á samskiptum við Dembra-leiðbeinanda skólans. Tengiliðurinn getur einnig gegnt hlutverki hópstjóra en skólanum er einnig frjálst að skipuleggja hópinn með öðrum hætti.
Upplýsingar um nafn, stöðu, netfang og símanúmer allra hópmeðlima eru sendar til Dembra-leiðbeinanda.
Dembra-hópnum ber að hittast reglulega til að ræða og skipuleggja verkefnið. Í annasamri skólaviku getur reynst auðveldara að halda marga stutta fundi heldur en lengri fundi og færri. Það er hins vegar mikilvægt að skólastjórnendur veiti Dembra-hópnum nægan tíma og svigrúm til að sinna starfi sínu. Á flipanum Dembra-hópurinn er að finna tillögur að skipulagi á starfi hópsins.
Dembra-hópurinn ber einnig ábyrgð á því að miðla nýjum upplýsingum um framgang verkefnisins til starfsfólks skólans. Hópurinn þarf að gæta þess að miðla reglulega upplýsingum um Dembra á sameiginlegum vinnustundum kennara, t.d. með því að segja í stuttu máli frá þróun verkefnisins.
Gátlistarnir á þessum síðum eru verkfæri Dembra-hópsins. Hópurinn ber s.s. meginábyrgð á framkvæmd atriðinna á listanum og sér um að merkja við þau.
3. Innleiðingardagatal
Þegar Dembra-hópurinn hefur verið stofnaður byrjar hópurinn á að tímasetja verkefni á gátlistanum og velja dagsetningar á dagatalinu í „Dembra-árið okkar“.
Eftirfarandi verkefni ætti að tímasetja strax:
- Námskeið með starfsfólki um áskoranir og úrræði skólans (skólafundur 1)
- Spurningalisti lagður fyrir eða önnur upplýsingaöflun framkvæmd
- Fundur með fulltrúum nemenda
Æskilegt er að hópurinn ákveði sem flestar dagsetningar sem fyrst. Skólinn getur til dæmis ákveðið dagsetningar allra starfsmannafunda [hlekkur] og annarra aðgerða sem tengjast forvarnarstarfinu.
Dembra snýst um að skólinn setji í gang forvarnaraðgerðir að eigin vali. Þetta getur bæði falist í áframhaldandi þróun fyrirliggjandi úrræða og í nýjum úrræðum. Allar aðgerðir eru skráðar í Dembra-dagatalið en fyrir hverja þeirra þarf einnig eigin tímaáætlun með upplýsingum um lokadagsetningar og aðra áfanga. Nánari upplýsingar er að finna í kaflanum um Dembra-áætlunina [hlekkur].
4. Fundaráætlun með Dembra-leiðbeinanda
Utanaðkomandi Dembra-leiðbeinandi aðstoðar Dembra-hópinn á innleiðingartímabilinu. Tengiliður Dembra-hópsins ber meginábyrgð á samskiptum við leiðbeinandann og samskiptin byggjast einkum á tölvupóstum og símtölum. Allur hópurinn fær leiðbeiningar á fundum eða netfundum eftir þörfum, þó að lágmarki við eftirfarandi tilefni:
- Þegar Dembra-verkefnið er sett í gang í skólanum
- Þegar allri upplýsingaöflun er lokið. Þegar fram fer greining og umræður um aðstæður í skólanum og um gögn úr upplýsingaöflun. Fyrstu umræður um möguleg áherslusvið.
- Þegar áherslusvið hafa verið ákveðin (eða drög að þeim liggja fyrir). Þegar áherslusvið eru fínstillt og endurskoðuð og í fyrstu umræðum um hugsanleg verkefni.
- Þegar fyrstu drög að Dembra-áætlun liggja fyrir. Þegar áætlunin er fínstillt og endurskoðuð.
- Þegar fyrstu úrræðin hafa verið innleidd í skólanum. Þegar meta þarf starfið og endurskoða áætlanir fyrir frekari innleiðingar.
Dembra-hópurinn ákveður tímasetningar þessara funda í samráði við leiðbeinanda strax á upphafsstigi verkefnisins. Fundina skal færa inn í Dembra-dagatalið.