Temaer
-
Forvarnarstarf af hálfu skólans
Hvaða áskorunum stendur skólinn frammi fyrir? Hvaða mynstur blasa við hvað varðar aðlögun, útilokun og jaðarsetningu? Forvarnarstarf skólans gagnvart andúð á tilteknum hópum verður að byggja á því sem kennarar, stjórnendur og nemendur skólans telja mikilvægt. Hér er að finna lesefni um það hvernig forvarnarstarfið getur orðið annað og meira en tímabundið átaksverkefni: Hvernig hægt er að nota hvert námsfag fyrir sig og skólastarfið í heild sinni til að vinna gegn aðgreiningu og skapa umhverfi þar sem gagnrýnin hugsun ræður ríkjum.
-
Fordómar, andúð og hatur
Enginn er alveg laus við fordóma. Samt finnst okkur þeir fordómar sem búa innra með okkur öllum vera víðs fjarri því öfgakennda hatri sem sumir láta í ljós. Þó liggja gjarnan sömu kerfin þar að baki. Mikilvægir þættir í þessu eru þörf manneskjunnar til að tilheyra og þörf hennar á sjálfsmynd, samhengi og merkingu. Veldu flipann „Kynþáttafordómar, gyðingahatur og andúð á tilteknum hópum“ til að finna námsefni sem tengist ákveðnum gerðum fordóma.
-
Innræting öfgaskoðana, ofstæki og ofbeldi
Við lítum á hryðjuverk og ofbeldisfullt ofstæki sem skelfilega ógn við nútímasamfélög, hvort sem það eru hryðjuverkin í Útey þann 22. júlí 2011, atburðirnir í Nice og Berlín árið 2016 eða látlausar fréttir af hryðjuverkum í Istanbúl, Beirút, Kabúl og fleiri borgum. Það er ekki hlutverk skólans að berjast gegn hryðjuverkum, en þó getur hann mögulega stuðlað að því að færri einstaklingar láti heillast af öfgasamtökum og boðskap þeirra.
Hér geturðu kynnt þér betur hvað felst í innrætingu öfgaskoðana og ofbeldisfullu ofstæki. Sú þekking er veigamikil en þó er hún ekki mikilvægasta verkfæri kennarans í baráttunni gegn innrætingu öfgaskoðana. Kennarinn býr þegar yfir því verkfæri í gegnum faglegt starf sitt: Getunni til að upplifa hvern nemanda sem einstakling, mæta honum og setja sig í hans spor.
-
Kynþáttafordómar, gyðingahatur og ótti við múslima
Í sögulegu samhengi eiga kynþáttafordómar og gyðingahatur sér djúpstæðar rætur í Evrópu. Til að koma auga á og skilja þessi fyrirbæri í nútímanum er nauðsynlegt að þekkja bæði til sögu þeirra og viðhorfanna sem liggja þeim að baki. Þetta á einnig við um aðrar gerðir andúðar á tilteknum hópum, t.d. ótta við múslima og ótta við samkynhneigð. Allar gerðir andúðar eiga sameiginleg viss virkniferli sem láta okkur í té sjálfsmynd, öryggiskennd og tilgang. Auk þess eiga öll þessi viðhorf sér sögulega þróun sem verður að taka alvarlega og við verðum að skilja til fulls ef ætlunin er að öðlast skilning á þessari hegðun. Veldu flipann „Fordómar, andúð og hatur“ til að finna kennsluefni sem tengist fordómum af ólíku tagi.
-
Sjálfsmynd og að tilheyra hópnum
Hver einasta manneskja býr yfir hugmynd um það hver hún er; svokallaða sjálfsmynd. Sjálfsmynd snýst að miklu leyti um það hverju og hverjum við tilheyrum og hvaða gildi við höfum í lífinu. Það er í mannlegu eðli að finnast sá hópur sem við tilheyrum einsleitari en hann er í raun og veru. Því er sjálfsígrundun afar mikilvægur liður í öllu forvarnarstarfi.
-
Þekking og gagnrýnin hugsun
Gagnrýnin hugsun og ígrundun ögrar viðteknu hugarfari og getur leiðrétt það. Þekking á ólíkum birtingarmyndum umburðarleysis er nauðsynleg til að geta komið auga á, komið í veg fyrir og brugðist við tilteknum viðhorfum þegar þau skjóta upp kollinum í skólanum.