Fordómar, andúð og hatur

Enginn er alveg laus við fordóma. Samt finnst okkur þeir fordómar sem búa innra með okkur öllum vera víðs fjarri því öfgakennda hatri sem sumir láta í ljós. Þó liggja gjarnan sömu kerfin þar að baki. Mikilvægir þættir í þessu eru þörf manneskjunnar til að tilheyra og þörf hennar á sjálfsmynd, samhengi og merkingu. Veldu flipann „Kynþáttafordómar, gyðingahatur og andúð á tilteknum hópum“ til að finna námsefni sem tengist ákveðnum gerðum fordóma.

  • Hvað eru fordómar?

    Flýtivalmynd

    Fordómar eru skoðanir á öðrum manneskjum sem byggjast á hlutdrægum viðhorfum til hópsins sem þær teljast tilheyra. Þessi viðhorf gagnvart öðrum manneskjum byggjast eingöngu á hópnum sem þær tengjast, en ekki persónueinkennum þeirra.

    Segja má að með fordómum sé einstaklingur settur í hóp, ekki vegna þess að hann upplifi sjálfan sig sem hluta af þeim hópi heldur vegna þess að sá fordómafulli staðsetur hann í hópnum.

    Við höfum öll tilhneigingu til fordóma

    Fordómar eiga rót sína í algengum hegðunarferlum, sálarlífi manneskjunnar og því hvernig við öflum okkur upplýsinga. Gordon Allport fjallar m.a. um þetta í bókinni The Nature of Prejudice frá árinu 1954: Að fordómar búi ekki aðeins í sumum heldur í öllum; að við höfum öll tilhneigingu til fordóma.

    Öll berum við fordóma innra með okkur en við getum dregið úr þeim með því að vefengja þá stöðugt og líta á þá sem vandamál.

    Markmiðið er því ekki að uppræta fordóma heldur draga stöðugt úr eigin fordómum með því að vefengja þá og líta á þá sem vandamál; vinna stöðugt í eigin tilhneigingum til fordóma til að lágmarka áhrifin sem þeir hafa á aðrar manneskjur.

    Algeng mótunarkerfi fordóma

    Hver eru þá þessi algengu mótunarkerfi sem leiða til þess að fordómar myndast? Allport fjallar meðal annars um tilfinningakerfi okkar sem tengjast þörf okkar á að tilheyra og vita hver við erum. Samhliða þessu fjallar hann um þau vitsmunakerfi okkar sem við notum til að skipuleggja og flokka raunveruleikann.

    „Við“ og „hinir“

    Manneskjan er félagsvera sem skilgreinir sjálfa sig í samhengi við aðra. Við mótum okkur sjálfsmynd með því að vita hverjum við tilheyrum og hverjum við erum áþekk. „Ég“ skilgreini sjálfan mig út frá þeim „við“-hópi sem ég tel mig tilheyra. Í félagssálfræði er gjarnan talað um nærhóp, sem er hlutlausara hugtak. Slíkir hópar geta verið af öllum stærðum, allt frá fjölskylduhópnum sem við höfum tilheyrt á meðvitaðan hátt frá frumbernsku til stærri hópa á borð við heila þjóð eða jafnvel allt mannkynið. Veigamesta atriðið í tengslum við fordóma er sú þörf okkar að skilgreina eigin nærhóp – „við“ – út frá því hvað við erum ekki; út frá því að við upplifum annan fjarhóp sem eru „hinir“.

    Hugmyndir okkar um „hina“ geta verið neikvæðar og hatrammar, en þannig þarf að ekki að vera.

    Hugmyndir okkar um „hina“ geta verið neikvæðar og hatrammar, en þannig þarf að ekki að vera. Þegar við lítum á „hina“ sem fjandsamlega ógn getur það aukið einingu og samkennd hjá „okkur“ sem hópi. Það er vel þekkt að hægt er að skapa samfélagskennd hjá ólíkum samfélagshópum, a.m.k. tímabundið, með því að hvetja til samstöðu gegn ytri óvini. Sjálfsmynd okkar og sú tilfinning að tilheyra þarf þó ekki að vera í andstöðu við jákvæða upplifun okkar af „hinum“. Það er til dæmis alveg hægt að búa við öflug og jákvæð fjölskyldutengsl án þess að hata aðrar fjölskyldur.

    „Hinir“ eru einsleitari en „við“

    Allnokkrar rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að við notum tvær aðferðir til að aðgreina „okkur“ frá „hinum“. Í fyrsta lagi lítum við hópinn okkar almennt jákvæðari augum en „hina“. Í öðru lagi lítum við svo á að aðrir hópar séu einsleitari en okkar hópur. Sláandi dæmi um þetta síðarnefnda er það hvernig orðið afrískur er notað í Noregi til að lýsa persónueinkennum manneskju, á meðan hugtakið evrópskur er sárasjaldan notað. Þessi hugtök tilheyra sama flokknum en frá norsku sjónarhorni er auðveldara að koma auga á þann fjölbreytileika sem einkennir Evrópubúa en Afríkubúa. Sú tilhneiging að líta á aðra hópa sem einsleitari en okkar eigin hóp á gjarnan við um neikvæða eiginleika. Ef við verðum vör við neikvæð persónueinkenni í okkar hópi er auðvelt fyrir okkur að vísa til fjölbreytileika og margbreytni innan hópsins. Neikvæðir eiginleikar tengjast þar með einum eða fleiri einstaklingum, ekki hópnum í heild sinni. Þegar kemur að „hinum“ drögum við auðveldlega ályktanir um hópinn í heild sinni út frá upplifun okkar af einstaklingum innan hans.

     

  • Alhæfingar, flokkanir og staðalímyndir

    Flýtivalmynd

    Við notum flokkanir og hópaskiptingu til að skilja heiminn betur. Þessar flokkanir byggjast á alhæfingum: Við tökum eftir líkindunum með hundategundum frekar en því sem er ólíkt með þeim til að búa til flokkinn „hundar“. Flokkun af þessu tagi er grundvallaraðferð í allri vísindalegri hugsun – og hefur verið það a.m.k. allar götur síðan Carl von Linné gaf út flokkunarfræði plantna. Því er auðvelt að halda því fram að flokkun sem slík sé ekki af hinu illa. Að vinna út frá alhæfingum um hópa getur að sama skapi verið gagnlegt, t.d. þegar þú þarft að velja gjöf fyrir þriggja ára barn eða selja fleiri dagblöð.

    Að horfa á einstaklinginn, ekki hópinn

    Þegar notast er við alhæfingar er hins vegar auðvelt að missa sjónar á frávikum og þar með horfa framhjá sérkennum hvers einstaklings.

    Með alhæfingum er auðvelt að missa sjónar á frávikum og þar með horfa framhjá sérkennum hvers einstaklings.

    Kennarar hafa fengið góða þjálfun í því að líta á nemendur sína sem einstaklinga, óháð því hvaða hópum þeir tengjast. Við leitumst við að uppfylla þarfir og óskir hvers nemanda, frekar en að krefjast þess að allir passi inn í sama mótið. Það breytir því ekki að jafnvel okkur hættir til að alhæfa. Og flest höfum við líklega lent í því að tiltekinn einstaklingur kemur okkur á óvart með hegðun sem er ekki í samræmi við það sem við höfðum búist við – út frá eigin alhæfingum.

    Staðalímyndir

    Reynsluna af slíkri upplifun af einstaklingi getum við notað til að aðlaga grunnviðhorf okkar, auka skilning okkar á umræddum hópi eða víkka út skilning okkar á fjölbreytileikanum sem ríkir innan nemendahópsins. Hins vegar munum við oftar en ekki halda sömu grunnviðhorfum og líta þess í stað á umræddan einstakling sem undantekninguna frá reglunni. Það leiðir okkur að næsta vitsmunaferlinu í mótun fordóma: Staðalímyndum. Staðalímynd er fastmótuð alhæfing, þ.e.a.s. óbreytanleg sannfæring um tiltekinn hóp, sannfæring sem aðlagast hvorki né breytist með nýjum staðreyndum eða samskiptum við einstaklinga innan hópsins.

    Staðalímynd er fastmótuð alhæfing, sannfæring sem breytist ekki með nýjum staðreyndum.

    Vitanlega getur einstaklingur verið frávik frá almennum tilhneigingum innan hóps sem hann tilheyrir. Á meðan við erum opin fyrir slíkum undantekningum er ekki endilega slæmt í sjálfu sér að hafa viðhorf sem byggja á alhæfingum. Þegar viðhorf okkar til hóps breytast ekki, þrátt fyrir raunverulegar vísbendingar um að þau séu röng, fara þau hins vegar að valda vandræðum.

    Forvitni og gagnrýnin hugsun storka staðalímyndum

    Móteitrið gegn okkar eigin tilhneigingu til að hugsa í staðalímyndum felst í forvitni um blæbrigði mannlegrar tilveru og rangtúlkanir, gagnrýninni hugsun, sjálfsígrundun, auk getu okkar til að horfast í augu við þá staðreynd að allar alhæfingar fela í sér ofureinfaldanir. Allt þetta gerir okkur kleift að breyta okkar eigin viðhorfum.

    Það er þarna sem tilfinningaferli og vitsmunaferli okkar takast á. Hér á undan kom fram hvernig við skilgreinum sjálf okkur, hópinn okkar og hverjum við tilheyrum með því að nota samanburð við „hina“. Þetta veldur því að þegar við aðlögum hugmyndir okkar um „hina“ hefur það áhrif á það hvernig við upplifum okkar eigin hóp – og jafnvel okkur sjálf. Að breyta eigin sjálfsmynd felur í sér mun djúpstæðara ferli en að leiðrétta mistök um eitthvað sem skiptir litlu máli. Með öðrum orðum: Staðalímyndir um aðra eru lífseigar vegna þess að þær skilgreina okkur sjálf.

    Hér er eitt dæmi:

    Fótbolti er stór hluti af sjálfsmynd margra ungmenna, en fyrir aðra myndar andúðin á fótbolta grunninn að samstöðu og sjálfsmynd. Ýmsar ástæður geta legið að baki þegar fólk þolir ekki fótbolta, en fyrir mörgum felst ástæðan í neikvæðri mynd af knattspyrnumönnum, s.s. þeirri ímynd að knattspyrnumenn séu andlausir tuddar sem hafi bara áhuga á peningum. Að hitta knattspyrnumann sem reynist bæði íhugull og vingjarnlegur hristir upp í þessari ímynd af knattspyrnumönnum. Það ógnar einnig upplifun einstaklinganna á eigin hópi og viðhorfum þeirra til sjálfra sín. Þess vegna þyrfti margt að koma til ef hópurinn ætti að geta samþykkt að knattspyrnumenn séu ekki einsleitur heldur fjölbreyttur hópur.

  • Andúð á tilteknum hópum

    Flýtivalmynd

    Við notum lýsinguna „andúð á tilteknum hópum“ til að lýsa útilokandi viðhorfum gagnvart ýmsum hópum, allt frá almennum kynþáttafordómum og gyðingahatri til ótta við samkynhneigð og fordóma gagnvart fólki með fötlun. Manneskjur sem sýna grimmd gagnvart einum hópi hafa einnig tilhneigingu til að sýna öðrum hópum andúð.

    Tengslin á milli andúðar á ólíkum hópum

    Árið 2011 kom út rannsóknarskýrslan „Intolerance, prejudice and discrimination. A European report“. Gögnin í þessari rannsókn sýna fram á tengsl á milli sex ólíkra birtingarmynda andúðar á hópum, en þær voru: Ótti við samkynhneigð, ótti gagnvart múslimum, kynþáttafordómar (á líffræðilegum forsendum), gyðingahatur, andúð á innflytjendum og kvenhatur.

    Einstaklingar sem skora hátt í einum flokki andúðar fá að meðaltali almennt hátt skor í öðrum flokkum. Þótt ólíkir fordómar byggist á ólíkum grunni er þannig að finna samhengi á milli þeirra. Til að lýsa þessum tengslum hafa vísindamenn fengið hugtakið „heilkenni“ að láni úr læknavísindunum. Heilkenni er yfirheiti yfir röð einkenna sem gjarnan fylgjast að. Rannsakendurnir líta því svo á að andúð á tilteknum hópum sé heilkenni vegna þess hvernig ólíkir fordómar birtast gjarnan í samhengi hver við annan.

    Einstaklingar sem skora hátt í einum flokki andúðar fá að meðaltali almennt hátt skor í öðrum flokkum.

    Í þessari rannsókn kom einnig fram að þetta heilkenni tengist valdboðshyggju, trú á stigveldi innan samfélagsins og andstöðu gegn fjölbreytileika. Fordómarnir hafa s.s. sterk tengsl við ýmis andlýðræðisleg – a.m.k. ólýðræðisleg – viðhorf, auk neikvæðra viðhorfa til fólksflutninga og þess sýnilega fjölbreytileika sem þeir hafa í för með sér.

    Öryggiskennd sem forvarnaraðferð

    Andúð á tilteknum hópum felur í sér andlýðræðisleg og ofstækisfull viðhorf en innan hennar er einnig að finna minna ofstækisfulla afstöðu sem þó hefur útilokandi áhrif. Þennan þátt er áhugavert að skoða í samhengi við þau forvarnarráð sem stungið er upp á í lok þessarar rannsóknar. Ráðleggingarnar byggjast á meðvitund um að meginmarkmið fordóma og umburðarleysis gagnvart tilteknum hópum sé að skapa sjálfsmynd og einingu, skýra hugmynd um „okkur“ sem hóp sem verjast þarf þeirri ógn sem stafar af „hinum“.

    Andúð á tilteknum hópum skapar sjálfsmynd og einingu með því að útiloka aðra.

    Í rannsókninni kemur einnig fram hvernig óöryggi getur myndast af raunverulegum áhrifaþáttum, t.d. atvinnuleysi og slæmu efnahagsástandi. Því er ein megináskorun evrópskra samfélaga að tryggja öryggiskennd hjá þegnum sínum á annan hátt en með því að útiloka minnihlutahópa með andúð á tilteknum hópum.

  • Fordómar, mismunun og vald

    Flýtivalmynd

    Fordómar geta verið rótin á bakvið ójafnrétti og ójafna valdadreifingu innan samfélagsins. Fordómar eru þannig notaðir til að réttlæta mismunun.

    Útbreiddar hugmyndir um tiltekna hópa samfélagsins geta valdið því að meirihluti þegnanna samþykki mismunun, þ.e.a.s. að komið sé fram við einstakling á annan hátt vegna þess að hann eða hún tengist tilteknum hópi með einhverjum hætti. Skýr dæmi um þetta eru m.a. klassískar hugmyndir okkar um ólíka kynþætti í tengslum við nýlendustefnu og þrælahald eða þegar hugmyndir okkar um muninn á milli kynjanna eru notaðar til að réttlæta kynjamisrétti.

    Til að breytingar geti átt sér stað gætum við þurft að gefa frá okkur vald, valdastöður og ýmsa fordóma.

    Þegar við skiljum að okkar eigin fordómar geta viðhaldið ójafnrétti og fært okkur tiltekin forréttindi getur okkur þótt fráhrindandi hugmynd að leiðrétta eigin fordóma. Til að breytingar geti átt sér stað gætum við þurft að gefa frá okkur vald, valdastöður og ýmsa fordóma. Ef við höfnum til dæmis þeirri hugmynd að konur séu betur til þess fallnar að sjá um heimilið þurfa karlmenn að eftirláta konum meira rými á vinnumarkaði.

    Bein og óbein mismunun

    Hefðbundin mismunun gagnvart einstaklingum sem ekki eru af evrópskum uppruna felur í sér beina mismunun, enda er þar komið fram við ólíka hópa með ólíkum hætti. Mismunun getur hins vegar einnig komið fram með óbeinum hætti, þ.e. þegar jöfn meðferð á ólíkum hópum veldur ójafnvægi vegna þeirra þátta sem greina hópana að.

    Dæmi um þetta eru skráningarskilyrði í norska herinn, en eitt þeirra er krafa um lágmarkshæð einstaklinga. Þar sem karlar eru að jafnaði hærri en konur er þetta skilyrði körlum í hag, jafnvel þótt reglan sé í sjálfu sér almenn og gildi fyrir alla.

    Fordómar geta falið mismunun

    Í sögulegu samhengi hefur mismunun gagnvart konum og einstaklingum sem ekki eru evrópskir blasað við; hún hefur verið meðvituð og farið fram fyrir opnum tjöldum. Samt getur mismunun líka verið óljós og lúmsk. Þetta þýðir að þeir sem valda mismununinni koma ekki auga á hana sjálfir og hugsanlega var meðvituð ætlun þeirra ekki að mismuna. Í slíkum tilfellum getur verið erfitt að koma auga á ójafna meðferð á einstaklingum eða hópum vegna þess að innan samfélagsins er að finna útbreidda fordóma.

    Ómeðvitaðir fordómar geta leitt til óbeinnar mismununar.

    Eitt dæmi um óbeina mismunun er hvernig nafn atvinnuumsækjanda getur haft áhrif á það hvort honum eða henni býðst að koma í atvinnuviðtal. Samkvæmt rannsóknum sem fóru fram í Osló, Stavanger, Björgvin og Þrándheimi í Noregi eru 20-25% minni líkur á því að atvinnuumsækjendur sem heita pakistönskum nöfnum fái svar frá atvinnurekandanum, sé borið saman við umsækjendur sem heita hefðbundnum norskum nöfnum. Þetta gildir einnig þegar umsækjendur eru að öðru leyti jafnhæfir til starfsins (Birkelund et al. 2015). Sumir atvinnurekendur kunna að hafa neikvæð viðhorf gagnvart fólki sem heitir pakistönskum nöfnum, en rannsakendur hafa einnig sýnt fram á mismunun af hálfu þeirra vinnuveitenda sem ekki hafa slík viðhorf. Því er hugsanlegt að afstaða þeirra sé óbeinni, þ.e.a.s ómeðvituð.

    Mismunun í skólaumhverfinu

    Í dag er mismunun ólögleg hegðun og hugmyndin um jafnræði á sér djúpar rætur í norska menntakerfinu. Kennarar eru afar meðvitaðir um að mismuna ekki nemendum út frá kyni eða kynþætti, en mikilvægi sjálfsígrundunar verður enn meira þegar fyrir liggur að ómeðvituð viðhorf geta valdið óviljandi mismunun. Kennarar verða því að spyrja sjálfa sig hvort þeirra eigin flokkanir og undirliggjandi hugmyndir um muninn á milli hópa – hvort sem það er munurinn á strákum og stelpum eða munurinn á Evrópubúum eða fólki af öðrum uppruna – hafi áhrif á hegðun þeirra gagnvart einstaka nemendum.

    Kannanir með nemenda sýna að nemendur skynja mismunun og óréttláta meðferð.

    Aukinn fjöldi nemenda upplifir mismunun af hálfu kennara

    Helmingur þeirra nemenda sem hafa upplifað mismunun eða óréttláta meðferð heldur því fram að mismununin hafi verið af hálfu kennara eða annarra fullorðinna starfsmanna skólans. Þessar niðurstöður eru í mikilli mótsögn við jafnréttishugsjónir kennara en varpa einnig ljósi á mikilvægi þess að kennarar ígrundi eigin viðhorf og hvernig þeir koma fram við nemendur sína. Þar sem bæði viðhorf kennarans og mismunun af hans hálfu getur komið fram með óbeinum hætti er vel hugsanlegt að nemendur upplifi ójafna meðferð, jafnvel þótt kennarinn sjálfur sé ekki meðvitaður um það.

     

    Kennarar eru að sama skapi fulltrúar samfélagsins og því í valdastöðu. Kennarar geta vissulega upplifað vanmátt í krefjandi aðstæðum í skólastofunni og upp geta komið kringumstæður þar sem valdi kennarans er ögrað. Það breytir því ekki að sambandið á milli kennarans og nemandans er alltaf ójafnt. Kennarinn hefur aðgang að ýmsum formlegum og praktískum aðferðum í sínu starfi. Nemendur geta sýnt þessum aðferðum mótstöðu en þeir geta aldrei fengið vilja sínum framgengt með sama hætti og bæði kennarinn og skólinn í heild sinni.

    Sjálfsígrundun kemur í veg fyrir mismunun

    Þetta valdaójafnvægi gerir sjálfsígrundun kennara sérlega mikilvæga: Að þeir ígrundi eigin viðhorf gagnvart nemendum sínum, hvort viðhorfin geti komið í veg fyrir að þeir sýni aðstæðum nemenda sinna skilning og jafnvel hamlað þeim í að virkja nemendur sína eins og best verður á kosið.

    Hægt er að draga úr óbeinni mismunun með því að ígrunda eigin viðhorf og hegðun gagnvart nemendum.

    Allir samfélagsþegnar geta borið með sér fordóma af einhverju tagi. En fordómar með vald á bakvið sig eru margfalt öflugri en þeir fordómar sem leynast í litlum og veikburða hópi. Þegar völd spila inn í geta fordómar haft afleiðingar sem varða alla samfélagsskipanina og þeir geta réttlæt mismunun af ýmsu tagi. Í dag kalla margir eftir því að til að skilja mismunun í samfélaginu þurfum við að víkka út sjónarhorn okkar; að skoða hugtök á borð við „forréttindi“ og „kynþáttafordóma“ í stað þess að einblína á fordóma sem slíka. Mikið er rætt um það hvernig við skilgreinum hugtakið „kynþáttafordómar“, eins og lesa má hér. Ein skilgreiningin lítur á kynþáttafordóma sem samfélagsstigveldi þar sem valdbeiting skapar samfélag mismununar út frá tilteknum fordómum; svokallaða „kerfisbundna kynþáttafordóma“.

    Við vitum að fordómar geta dulið samhengið á milli orsaka og afleiðingar og því er mikilvægt fyrir okkur að leita inn á við, ígrunda eigin hugmyndir og vera opin fyrir þeim möguleika að í þeim felist fordómar.

  • Lesefni

    Allport, Gordon W. (1979). The nature of prejudice. Unabridged, 25th anniversary utg.  Reading, Mass.: Addison-Wesley Pub. Co., (første utgave 1954).

    Birkelund, Gunn Elisabeth et al. (2014). «Diskriminering i arbeidslivet ; resultater fra randomiserte felteksperiment i Oslo, Stavanger, Bergen og Trondheim, Sosiologisk tidsskrift, vol. 22, no. 4.

    Dixon, John/ Mark Levine (2012). Beyond prejudice: extending the social psychology of conflict, inequality and social change.  Cambridge: New York : Cambridge University Press.

    Dovidio, John. F./ Glick, P. S./ Rudman, L. A. (2005). On the nature of prejudice : fifty years after Allport. Malden, MA: Blackwell Pub.

    Keen, Ellie/ Georgescu, Mara, Europarådet/ Det Europeiske Wergelandsenteret (2014). Bookmarks – en håndbok for forebygging av hatprat på nettet gjennom menneskerettserklæringen.

    Lenz, Claudia (2010). Konstruksjon av den andre – teoretiske og historiske perspektiver. Christhard Hoffmann, Øivind Kopperud (red.): Forestillinger om jøder – aspekter ved konstruksjonen av en minoritet. Oslo: unipub.

    Nilsen, Anne Birgitta. (2014). Hatprat. Oslo: Capellen Damm Akademisk.

    Røthing, Åse: Skolen som fordoms- og forebyggingsarena. I: Lenz, Claudia, Nustad, Peder & Geissert, Benjamin (red.). Dembra. Faglige perspektiver på demokrati og forebygging av gruppefiendtlighet i skolen. Oslo: HL-senteret: (36-47).

    Thuge, Stine/ Brøndum, Tine (2015). Forskellighed og fordomme – en lærebog til grundskolen om intolerance.

    Zick, Andreas/ Küpper, Beate/ Hövermann, Andreas. (2011). Intolerance, Prejudice and Discrimination. A European Report.

  • Aðrar heimildir

    Fordommer fordummer

    Nettsiden vil være ”en faktabasert myteknuserside, og skal bidra til å gjøre det offentlige ordskiftet på rasisme- og diskrimineringsfeltet opplyst.” Prosjektet har også egen facebookside.

    «Homo-horejøde-terroristsvarting» – sier vi

    Opplegg fra Den norske kirke for konfirmantlærere, mot rasisme, antisemittisme og fordommer. Mange gode øvelser knyttet til identitet.

    Bookmarks

    Undervisningsmateriell utviklet for Europarådets kampanje mot hatprat på nettet. 21 moduler for aktiviteter om fordommer, hatefulle ytringer på nettet og strategier for å skape en menneskerettighetskultur på nettet.

    Restart – Riv gjerdene!

    Et normkritisk metodemateriale i antidiskriminerende arbeid utviklet av Skeiv ungdom.

    A’ Adam’s Bairns?

    Skotsk ressurs om ulike utfordringer i samfunnet, deriblant fordommer og diskriminering (Unit 5). Flere gode øvelser, for eksempel øvelsen om stereotypisering.

Undervisningsopplegg