Fordómar eru skoðanir á öðrum manneskjum sem byggjast á hlutdrægum viðhorfum til hópsins sem þær teljast tilheyra. Þessi viðhorf gagnvart öðrum manneskjum byggjast eingöngu á hópnum sem þær tengjast, en ekki persónueinkennum þeirra.
Segja má að með fordómum sé einstaklingur settur í hóp, ekki vegna þess að hann upplifi sjálfan sig sem hluta af þeim hópi heldur vegna þess að sá fordómafulli staðsetur hann í hópnum.
Við höfum öll tilhneigingu til fordóma
Fordómar eiga rót sína í algengum hegðunarferlum, sálarlífi manneskjunnar og því hvernig við öflum okkur upplýsinga. Gordon Allport fjallar m.a. um þetta í bókinni The Nature of Prejudice frá árinu 1954: Að fordómar búi ekki aðeins í sumum heldur í öllum; að við höfum öll tilhneigingu til fordóma.
Öll berum við fordóma innra með okkur en við getum dregið úr þeim með því að vefengja þá stöðugt og líta á þá sem vandamál.
Markmiðið er því ekki að uppræta fordóma heldur draga stöðugt úr eigin fordómum með því að vefengja þá og líta á þá sem vandamál; vinna stöðugt í eigin tilhneigingum til fordóma til að lágmarka áhrifin sem þeir hafa á aðrar manneskjur.
Algeng mótunarkerfi fordóma
Hver eru þá þessi algengu mótunarkerfi sem leiða til þess að fordómar myndast? Allport fjallar meðal annars um tilfinningakerfi okkar sem tengjast þörf okkar á að tilheyra og vita hver við erum. Samhliða þessu fjallar hann um þau vitsmunakerfi okkar sem við notum til að skipuleggja og flokka raunveruleikann.
„Við“ og „hinir“
Manneskjan er félagsvera sem skilgreinir sjálfa sig í samhengi við aðra. Við mótum okkur sjálfsmynd með því að vita hverjum við tilheyrum og hverjum við erum áþekk. „Ég“ skilgreini sjálfan mig út frá þeim „við“-hópi sem ég tel mig tilheyra. Í félagssálfræði er gjarnan talað um nærhóp, sem er hlutlausara hugtak. Slíkir hópar geta verið af öllum stærðum, allt frá fjölskylduhópnum sem við höfum tilheyrt á meðvitaðan hátt frá frumbernsku til stærri hópa á borð við heila þjóð eða jafnvel allt mannkynið. Veigamesta atriðið í tengslum við fordóma er sú þörf okkar að skilgreina eigin nærhóp – „við“ – út frá því hvað við erum ekki; út frá því að við upplifum annan fjarhóp sem eru „hinir“.
Hugmyndir okkar um „hina“ geta verið neikvæðar og hatrammar, en þannig þarf að ekki að vera.
Hugmyndir okkar um „hina“ geta verið neikvæðar og hatrammar, en þannig þarf að ekki að vera. Þegar við lítum á „hina“ sem fjandsamlega ógn getur það aukið einingu og samkennd hjá „okkur“ sem hópi. Það er vel þekkt að hægt er að skapa samfélagskennd hjá ólíkum samfélagshópum, a.m.k. tímabundið, með því að hvetja til samstöðu gegn ytri óvini. Sjálfsmynd okkar og sú tilfinning að tilheyra þarf þó ekki að vera í andstöðu við jákvæða upplifun okkar af „hinum“. Það er til dæmis alveg hægt að búa við öflug og jákvæð fjölskyldutengsl án þess að hata aðrar fjölskyldur.
„Hinir“ eru einsleitari en „við“
Allnokkrar rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að við notum tvær aðferðir til að aðgreina „okkur“ frá „hinum“. Í fyrsta lagi lítum við hópinn okkar almennt jákvæðari augum en „hina“. Í öðru lagi lítum við svo á að aðrir hópar séu einsleitari en okkar hópur. Sláandi dæmi um þetta síðarnefnda er það hvernig orðið afrískur er notað í Noregi til að lýsa persónueinkennum manneskju, á meðan hugtakið evrópskur er sárasjaldan notað. Þessi hugtök tilheyra sama flokknum en frá norsku sjónarhorni er auðveldara að koma auga á þann fjölbreytileika sem einkennir Evrópubúa en Afríkubúa. Sú tilhneiging að líta á aðra hópa sem einsleitari en okkar eigin hóp á gjarnan við um neikvæða eiginleika. Ef við verðum vör við neikvæð persónueinkenni í okkar hópi er auðvelt fyrir okkur að vísa til fjölbreytileika og margbreytni innan hópsins. Neikvæðir eiginleikar tengjast þar með einum eða fleiri einstaklingum, ekki hópnum í heild sinni. Þegar kemur að „hinum“ drögum við auðveldlega ályktanir um hópinn í heild sinni út frá upplifun okkar af einstaklingum innan hans.