Kynþáttafordómar og fjöldamorð
Norðmenn munu aldrei gleyma morðinu á Benjamin Hermansen. Fyrir því eru margar ástæður, en ein sú augljósasta er að hann var eingöngu myrtur vegna húðlitar síns. Þeir sem myrtu hann voru yfirlýstir nýnasistar. Saga Benjamins er um saklausan dreng sem myrtur er á grimmdarlegan hátt, en hún kallar einnig fram tengsl við verstu fasistaríki, hryðjuverk og fjöldamorð síðari tíma. Þetta er saga sem í huga okkar tengist Þýskalandi nasismans, aðskilnaðarstefnunni og Ku Klux Klan.
Morðið á Benjamin minnir okkur á skuggalegustu augnablikin í sögu kynþáttafordóma; sögu sem nánast allir Norðmenn fordæma.
Morðið á Benjamin minnir okkur á skuggalegustu augnablikin í sögu kynþáttafordóma; sögu sem nánast allir Norðmenn fordæma. Tengingin við þessa sögu getur útskýrt þau átök sem nú standa yfir um hugtakið „kynþáttafordómar“. Þegar orðið „kynþáttafordómar“ er notað felur túlkunarramminn ekki bara í sér fræðilegan skilning á hugtakinu – orðið vísar einnig til kúgunar og fjöldamorða.
Þess vegna sárnar mörgum kennurum þegar nemendur kalla þá rasista, sem sýnir vel að hugtakið felur í sér meiri þyngd og vægi en orð gera öllu jöfnu. Í sumum tilfellum er hægt að nota önnur orð: Mismunun, útlendingaótti, karlremba, útilokun. Ekkert þessara orða hefur þó sama vægi og orðið „rasisti“.
Hvað eru kynþáttafordómar?
Orðið „kynþáttafordómar“ (einnig kallað rasismi) vísar til orðsins „kynþáttur“ og það var fyrst notað á fjórða áratug 20. aldar til að andmæla kynþáttahyggju og gyðingahatri í heimssýn nasista. Þrengri skilgreiningar á orðinu tengja það við þá hugmynd eða kenningu að kynþáttur sé líffræðilegt fyrirbæri. Eina skilgreiningu er að finna í Encyclopaedia Britannica (britannica.com):
„hvers kyns aðgerðir, hegðun eða trú sem felur í sér heimssýn kynþáttahyggju – hugmyndafræði sem gengur út á að hægt sé að skipta mannkyninu niður í aðskildar og einangraðar einingar, svokallaða „kynþætti“; að orsakatengsl sé að finna á milli líkamlegra erfðaþátta og persónueinkenna, gáfnafars, siðferðiskenndar og annarra menningar- og atferliseinkenna, og að sumir kynþættir séu æðri öðrum frá náttúrunnar hendi.
Víðari skilgreiningar á kynþáttafordómum vísa til ójafnrar meðferðar af ýmsu tagi, ekki endilega vegna kynþáttar. Dæmi um þetta er alþjóðasamningur Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis frá árinu 1966, en þar er „kynþáttamisrétti“ skilgreint á eftirfarandi hátt:
„ … hvers kyns aðgreining, útilokun, takmörkun eða forgangur sem byggður er á kynþætti, litarhætti, ætterni eða þjóðernis- eða þjóðlegum uppruna.“
Í bók sinni „Hvað eru kynþáttafordómar?“ (Hva er rasisme?) frá árinu 2015 skilgreina Bangstad og Døving kynþáttafordóma með eftirfarandi hætti (1. kafli):
-
- Að skipa almennum borgurum í ólíka hópa þar sem sumum eru eignuð neikvæð og eðlislæg (óbreytanleg) einkenni.
- Að smætta sjálfsmynd einstaklings niður í neikvæð einkenni tiltekins hóps.
- Að nota þessi neikvæðu einkenni til að réttlæta undirskipun og mismunun einstaklinga.
Út frá þessari lýsingu eru kynþáttafordómar annað og meira en annars vegar fordómar og hins vegar misrétti. Samkvæmt Bangstad og Døving fléttast fordómar og misrétti saman í hugtakinu „kynþáttafordómar“: Kynþáttafordómar eru þegar fordómar eru notaðir til að réttlæta misrétti.
Kynþáttafordómar sem baráttuhugtak
Í umræðunni er gjarnan deilt um það hvað kynþáttafordómar fela í sér. Kynþáttafordómar eru viðkvæmt viðfangsefni sem auðvelt er að nota í pólitískum tilgangi; viðfangsefni sem getur orðið að baráttuhugtaki, sem er skiljanlegt í samhengi við þrúgandi og blóðuga sögu kynþáttafordóma. Segja má að kynþáttafordómar dagsins í dag, sem byggja á líffræðilegum rökum, séu vestræn hugmynd. Þegar kynþáttafordómar eru skilgreindir með víðari hætti og litið á þá sem fordóma sem réttlæta misrétti er hægt að rekja tilvist kynþáttafordóma miklu lengra aftur til ótal ólíkra samfélaga og landsvæða.
Hugtakið felur í sér hugmyndina um „okkur“ og „hina“ og í því felst að einstaklingar sem tilheyra „hinum“ geti aldrei orðið eins og „við“ eða tilheyrt „okkur“.
Hugtakið felur í sér hugmyndina um „okkur“ og „hina“ og í því felst að einstaklingar sem tilheyra „hinum“ geti aldrei orðið eins og „við“ eða tilheyrt „okkur“. Á bakvið slík viðhorf lágu gjarnan trúarlegar útskýringar þar sem guðdómlegt yfirvald hafði fordæmt „hina“. Í rökræðum um þetta málefni er gjarnan einblínt á muninn á kynþáttafordómum sem byggja á líffræðilegum grunni og víðari skilgreiningum á kynþáttafordómum, sem getur að einhverju leyti skýrt hvers vegna svo mikil ósátt ríkir um merkingu hugtaksins. Þegar hugtakið er notað verður hins vegar ekki komist hjá tengingu þess við þrælahald og fjöldamorð. Þetta getur skýrt hvers vegna hugtakið „kynþáttafordómar“ er umdeilt og tilfinningum hlaðið. Á sama tíma eru það einmitt sögulegar skírskotanir hugtaksins sem gera það svona veigamikið. Orðfæri á borð við „hversdagslegir kynþáttafordómar“ getur því virst mótsagnakennt vegna þess að það er ekkert hversdagslegt við ofsóknir, þrælahald og fjöldamorð. Önnur hugtök láta líka á sér kræla, t.d. „útlendingahatur“, „fordómar“, „útlendingaótti“, „misrétti“, „kerfisbundið misrétti“ og „forréttindi meirihlutans“. Það hvaða hugtak er notað til að lýsa tilteknum aðstæðum verður að skoða út frá orðfæri viðkomandi einstaklings, hvernig hann eða hún túlkar aðstæðurnar og hverju viðkomandi vill ná fram með orðavali sínu.
Megineinkenni á kynþáttafordómum dagsins í dag er hvort viðhorfið gagnvart tilteknum hópi er fastmótað og hvort hópnum eru eignaðir eiginleikar sem meðlimir hans komast ekki undan.
Megineinkenni á kynþáttafordómum dagsins í dag er hvort viðhorfið gagnvart tilteknum hópi er fastmótað og hvort hópnum eru eignaðir eiginleikar sem meðlimir hans komast ekki undan.
Kerfisbundnir kynþáttafordómar og hversdagslegir fordómar
Mikill munur er á því þegar rasísk viðhorf leggja grunn að samfélagsgerðinni, t.d. þegar aðskilnaðarstefnan réð ríkjum í Suður-Afríku til ársins 1994, eða þegar kynþáttafordómar brjótast út í hegðun eða gjörðum einstaklings. Michel Wieviorka hefur varpað ljósi á fjögur stig kynþáttafordóma innan ólíkra samfélaga (The Arena of Racism 1995, 5. kafli):
- Undirliggjandi kynþáttahyggja, sem einkennist af ólíkum birtingarmyndum útlendingaótta, leggur grunninn að kynþáttafordómum.
- Kynþáttafordómar koma skýrt en dreift fram í samfélaginu – þar á meðal í viðhorfskönnunum.
- Kynþáttafordómar koma fram á stjórnmálasviðinu, þ.e.a.s. með stofnun rasískra (stjórnmála)hreyfinga.
- Kynþáttafordómar eru allsráðandi grundvallarþáttur í samfélaginu sem byrja að leiða til útilokunar og ofsókna.
Á fyrsta stiginu í kenningum Wieviorka er hugtakið „hversdagslegir kynþáttafordómar“ oft notað um kynþáttafordóma. Hversdagslegir kynþáttafordómar felast í því þegar „hinir“ mæta viðhorfum eða lenda í atvikum sem ekki stafa af ásettu ráði. Það gæti t.d. verið þegar hörundsdökkt fólk er litið hornauga í strætó eða þegar íbúi er andsnúinn því að sómölsk fjölskylda flytji í næstu íbúð.
Saga kynþáttafordóma
Hugtakið „kynþáttafordómar“ kom fyrst fram á sjónarsviðið í belgískri fræðigrein árið 1922 sem gagnrýndi hugmyndir um að hinn germanski kynstofn væri æðri öðrum. Hugtakið náði frekari útbreiðslu í bók sem þýski gyðingurinn Magnus Hirschfeld skrifaði árið 1938, en hann var kynfræðingur og læknir og bókin kom út í Bandaríkjunum að honum látnum. Hirschfeld er einnig talinn upphafsmaður að réttindabaráttuhreyfingum samkynhneigðra eins og við þekkjum þær í dag. Þar sem Hirschfeld var kynfræðingur, baráttumaður gegn kynþáttafordómum, baráttumaður gegn nasismanum, gyðingur og yfirlýstur stuðningsmaður samkynhneigðra passaði hann vel inn í heimsendaspár nasista, en þeir héldu því fram að markmið gyðinga og samverkamanna þeirra væri að sundra þýsku þjóðinni og veikja hana með því að grafa undan félagslegum hefðum, hvetja til blöndunar á milli kynþátta og hrifsa að endingu til sín öll völd.
Hugtakið „kynþáttur“ kom fyrst fram á sjónarsviðið á 16. öld, fyrst og fremst í samhengi við ættartengsl. Líffræðilegir kynþáttafordómar, sem gjarnan tengjast nýlendustefnu, þrælahaldi og aðskilnaðarstefnu, eiga rætur sínar að rekja til Upplýsingarinnar, nútímavæðingar og vísindaþróunar frá og með 18. öldinni. Því er hægt að segja að líffræðilegir kynþáttafordómar séu nútíma kynþáttafordómar. Vísindamenn sem rannsökuðu kynþætti út frá líffræðilegum forsendum lögðu til að fólk yrði flokkað eftir sýnilegum, líkamlegum einkennum og þetta fóru rasistar að nota til að réttlæta stigveldi innan samfélaga út frá umræddum flokkum. Nútímaleg „kynþáttavísindi“ sköpuðu þannig orðræðu þar sem fyrst og fremst var litið á hóp fólks sem líffræðilegt og mannfræðilegt samfélag, frekar en til að mynda sem trúarlegt samfélag. Hér er vert að bæta því við að innan vísinda og mannfræðinnar fengu hugmyndir nasista um æðri kynþátt lítinn stuðning. Nasisminn byggði á goðsögnum sem áttu sér enga stoð í kynþáttavísindum og líffræðilegri mannfræði.
Aðskilnaður kynþátta út frá líffræði og menningu
[Image: rasekart]
Heimild: Deutsches Konversationslexikon, 1890.
Þetta kort er að finna í þýskri alfræðiorðabók frá árinu 1890. Þar er mannkyninu skipt niður í þrjá helstu kynþætti: Kákasusmenn, negra og mongóla. Á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar var það útbreidd skoðun í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum að mannkyninu mætti skipta niður í aðskilda kynþætti út frá líffræðilegum einkennum – og að evrópsk menning væri sú háþróaðasta. Sú hugmynd að þróun samfélagsmenningar héldist í hendur við líffræðilega getu hópsins var útbreidd í vestrænum þankagangi.
Hugmyndin um að önnur menningarsamfélög væru óæðri og vanþróuð varð þannig fyrirrennari líffræðilegra kynþáttafordóma.
Hugmyndin um að önnur menningarsamfélög væru óæðri og vanþróuð varð þannig fyrirrennari líffræðilegra kynþáttafordóma. Hvítir Evrópubúar trúðu því að önnur menningarsamfélög, sem þeir litu á sem óæðri, væru það vegna lakara gáfnafars. Í dag virðist gjarnan litið svo á að líffræðilegir kynþáttafordómar hafi aðeins snúist um líffræðilega eiginleika í sögulegu samhengi. Í þessu felst misskilningur. Tengslin á milli menningar og erfðaþátta voru ávallt talin vera sterk.
Víðtæk vitneskja um kúgun þeldökkra Afríkubúa á nýlendutímanum, t.d. í Suðurríkjum Bandaríkjanna og Suður-Afríku, hefur ýtt undir þann misskilning að aðeins þeldökkir einstaklingar verði fyrir kynþáttafordómum.
Margt bendir til þess að best þekkta dæmið um kynþáttafordóma sé lögleg kúgun þeldökkra Afríkubúa í evrópskum nýlendum, Suðurríkjum Bandaríkjanna og Suður-Afríku, bæði fyrir og eftir aldamótin 1900. Þetta hefur ýtt undir þann misskilning að aðeins þeldökkir einstaklingar verði fyrir kynþáttafordómum. Samkvæmt heimsmynd sem byggir á kynþáttahyggju voru t.d. Rússar, Samar og Inúítar af mongólskum uppruna og þar með óæðri. Hinum mongólska kynþætti var gjarnan lýst þannig að „stutt hauskúpa“ einkenndi hann, en þó væri hann jafnljós á hörund og kynþættir með „langa hauskúpu“. Ekki er hægt að skilja til fulls vissa sögulega viðburði án þess að þekkja einnig til sögu kynþáttalíffræði og kynþáttafordóma, t.d. þær aðlögunarreglur sem norska ríkið skikkaði Sama til að fara eftir og fjöldamorð nasistaríkisins á Pólverjum og Rússum. Sem dæmi má nefna að í lok 19. aldar voru Samar hafðir til sýnis í dýragörðum. Kynþáttahyggjan sem var bæði útbreidd fyrir síðari heimsstyrjöldina og á meðan henni stóð – og sem nasisminn byggði á – átti sér fleiri og lúmskari birtingarmyndir en kortið frá 1890, en allar grunnhugmyndirnar voru þær sömu.
Kynþáttalausir kynþáttafordómar
Nýlegar erfðafræðirannsóknir hafa að miklu leyti hrakið þá hugmynd að mannkynið samanstandi af ólíkum kynþáttum. Ekki er að finna nein tengsl á milli ytri og sýnilegra eiginleika, sem rannsóknir á kynþáttum hafa lagt mikla áherslu á í sögulegu samhengi, og innri eiginleika sem aðeins er hægt að rannsaka með hátæknibúnaði á rannsóknarstofum. Með öðrum orðum er ekki hægt að spá fyrir um blóðflokk einstaklings út frá húðlit hans eða hennar. Samt trúa því sumir að þekking á erfðafræðilegum mun á milli ólíkra hópa hafi gildi í læknisfræðilegum skilningi.
Nú þegar erfðafræðin hefur að miklu leyti hrakið hugmyndina um kynþáttavísindi er þess í stað gjarnan talað um „kynþáttalausa kynþáttafordóma“.
Nú þegar erfðafræðin hefur að miklu leyti hrakið hugmyndina um kynþáttavísindi er þess í stað gjarnan talað um „kynþáttalausa kynþáttafordóma“. Með því er átt við að þótt í dag séu aðrar breytur notaðar til að flokka hópa (t.d. menning, trúarbrögð eða þjóðarbrot) séu viðhorfin, fordómarnir og kúgandi aðferðirnir hinar sömu og þeir sem aðhylltust líffræðilega kynþáttahyggju notuðu. Slíkar röksemdafærslur leggja grunn að víðtækri skilgreiningu á kynþáttafordómum sem einhverju stærra og meira en mismunun á grundvelli kynþáttar.
Að fást við kynþáttafordóma í skólastofunni
Kynþáttafordómar verða áfram tengdir við hryllilega glæpi í fyrirsjáanlegri framtíð. Í augum margra barna og ungmenna eru kynþáttafordómar hins vegar almennt og hversdagslegt fyrirbæri, þ.e.a.s. eitthvað sem allir geta stundað og orðið fyrir, og minni líkur eru á því að þau hugi að hinu sögulega samhengi. Hins vegar er líklegt að viðhorf kennara til kynþáttafordóma litist í meira mæli af sögunni. Ef kennarinn er ekki meðvitaður um ólíka notkun og túlkun hugtaksins „kynþáttafordómar“ er hætt við því að nemendur og kennarar tali einfaldlega ekki sama tungumálið.
Það er mikilvægt að þekkja til kynþáttafordóma í sögulegu samhengi vegna þess að þannig getum við komið auga á dæmigerðar hugmyndir sem byggja á kynþáttafordómum.
Í kennslu um kynþáttafordóma er áríðandi að horfa ávallt á fortíðina og nútímann í samhengi. Það er mikilvægt að þekkja til kynþáttafordóma í sögulegu samhengi vegna þess að þannig skiljum við betur þá hættu sem stafar af kynþáttafordómum og getum betur komið auga á dæmigerðar hugmyndir sem byggja á þeim. Skoðum dæmi: Nemandi spyr kennara hvort henni finnist bananar góðir. Nokkrir nemendur flissa. Einn þeldökkur nemandi flissar ekki. Til að geta lagt mat á stöðuna og séð hvernig hægt er að bregðast við á ólíkan hátt þarf kennarinn að þekkja til gömlu klisjunnar um að þeldökkir Afríkubúar séu skyldari öpum en manneskjum. Vísindamenn á Vesturlöndum freistuðu þess að sanna þessa ályktun á 19. öld og þessi viðleitni þeirra var nýtt til að lögleiða kúgunina. Þótt þessi klisja hafi verið verið vísindalega hrakin með óyggjandi hætti hefur reynst erfitt að kveða hana niður. Segja má að með þessu sögulega samhengi sé spurningin mun alvarlegri en án þess. Kennarinn getur áfram valið að bregðast við spurningunni með ýmsum hætti, en með því að þekkja sögulegu vísanirnar á bakvið orðið „banani“ er hann mun betur í stakk búinn til að takast á við þessar aðstæður.
Tökum annað dæmi: Nemandi kallar annan nemanda „kartöflu“. Þessi orðanotkun kemur frá Hedmark-svæðinu í Noregi þar sem orðið var notað til að gera lítið úr kartöflubændum. Í dag er það notað sem slanguryrði hjá ungmennum yfir einstaklinga með ljósan húðlit. Í þessari orðanotkun er einnig að finna sögulegt samhengi. Munurinn á þessu og fyrra dæminu er að hér er sögulegi bakgrunnurinn ekki eins alvarlegur. Það þýðir ekki að svona aðstæður beri að leiða alfarið hjá sér, en vitneskja um sögulegan uppruna þessa slanguryrðis auðveldar kennaranum að leggja mat á aðstæðurnar.
Þegar kynþáttafordómar eru teknir til umfjöllunar í skólastofunni gæti kennarinn byrjað á að spyrja nemendur hvort þeir hafi sjálfir upplifað kynþáttafordóma. Ef svo er getur kennarinn spurt spurninga á borð við „í hverju lentirðu?“ og „hvers vegna fannst þér þetta vera kynþáttafordómar?“. Kennarinn getur líka rætt um það við nemendur hvað kynþáttafordómar fela í sér: „Hvað finnst ykkur vera kynþáttafordómar?“ „Á hverja hafa kynþáttafordómar áhrif?“ „Geta allir orðið fyrir kynþáttafordómum?“ Kennarinn getur einnig fjallað um kynþáttafordóma í sögulegu samhengi, t.d. með því að skoða „kynþáttavísindi“ með öllum sínum mælingum og kortlagningu kynþátta, auk þess að skoða sögulegar aðstæður á borð við aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku, þrælahald í Bandaríkjunum, meðferð Norðmanna á Sömum og Töturum eða þrælasölu Evrópubúa og Araba á vissum landsvæðum í Afríku.
Í kennslu um kynþáttafordóma getur verið gagnlegt að tengja sögulegar staðreyndir við stöðuna í dag.
Í kennslu um kynþáttafordóma getur verið gagnlegt að tengja sögulegar staðreyndir við stöðuna í dag: „Hvernig takast Bandaríkjamenn á við eigin sögu um þrælahald?“ „Hvaða bætur og leiðréttingar hafa norsk stjórnvöld veitt Sömum í Noregi?“ Í samantekt getur kennarinn tekið aftur upp fyrri umræðuefni og rætt ólíkar túlkanir nemenda á kynþáttafordómum og þeim sögulegu atburðum sem fjallað var um. Þetta er viðfangsefni þar sem ólíkar skoðanir ríkja og því ættu umræðurnar að verða líflegar.
Höfundur: Harald Syse