Líkurnar á því að vel takist til í forvarnarstarfi skólans aukast mjög, bæði til lengri og skemmri tíma, ef stjórnendur og starfsfólk taka höndum saman um að þróa heildarþekkingu skólans, viðhorf og færni hvað varðar nám, kennslu og samstarf. „Skólinn“ er í þessu samhengi allir þeir sem tengjast skólanum á einn eða annan hátt, skólastjórnendur, kennarar, annað starfsfólk, nemendur og samstarfsaðilar á borð við foreldra og aðra á svæðinu.
Færðar hafa verið sönnur á áhrif heildstæðrar skólaþróunar af þessu tagi – sem einnig er kölluð færniþróun skólastarfs. Rannsóknir á færniþróun skólastarfs hafa leitt í ljós marga ólíka þætti sem saman stuðla að varanlegum breytingum (sjá m.a. Postholm 2012, Flygare o.fl. 2011).
Í Dembra er notast við fimm stiga líkan fyrir þróun skólastarfs:
1. stig: Færni kennara og skólastjórnenda
Forvarnir hefjast með uppfræðslu einstaklingsins og þeirri meginreglu að við þurfum að læra um, til að og með. Það er mikilvægt að læra um gyðingahatur, kynþáttafordóma og aðra mismunun til að geta komið í veg fyrir slíka hegðun og viðhorf í daglegu lífi í skólanum. Á sama tíma er mikilvægt að koma í veg fyrir mismunun með lýðræðislegum meginreglum á borð við opnar umræður, þátttöku og samráði við ákvarðanatöku.
Kennarar læra mest af því að ígrunda eigin kennsluaðferðir og eigin reynslu. Þetta kallar á að kennarar séu fúsir til að breyta eigin hegðun og verklagi út frá nýjum upplýsingum og breyttum viðhorfum. Þetta á einnig við um forvarnarstarfið og því er afar brýnt að innan kennarahópsins ríki góður félagsandi og fræðslumenning.
2. stig: Kennslan í skólastofunni
Skólastofan á að vera öruggt svæði fyrir skoðanaskipti og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum. Samhliða lýðræðislegum gildum á borð við þátttöku óháð uppruna, gagnkvæma virðingu og opnar umræður er mikilvægt að nota virkar kennsluaðferðir sem byggja á þekkingu, ígrundun og góðum samskiptum.
Skólastofan á að vera öruggt svæði fyrir skoðanaskipti og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum
Að vinna með færnimarkmiðin í kennslunni er kjarnastarfsemi hvers skóla. Þessi vinna er einnig mikilvægur liður í forvörnum gegn andúð á tilteknum hópum. Í kennslunni gefst tækifæri til að nota verkefni og námsefni þar sem unnið er með forvarnir gegn fordómum, t.d. námsefnið á Dembra. En forvarnarstarfið á sér einnig stað í annarri kennslu, t.d. þegar kennarinn ýtir undir þátttöku nemenda, hlustar á alla nemdendur, gefur þeim færi á að hafa bein áhrif og þjálfar með þeim gagnrýna hugsun í öllum námsgreinum.
3. stig: Skólamenning
Opin og lýðræðisleg skólamenning þar sem ríkja sterk tengsl á milli stjórnenda, kennara, nemenda og foreldra er algert lykilatriði hvað varðar forvarnar- og þróunarstarf hvers skóla.
Langvarandi þróunarstarfi þarf stöðugt að sinna og brýnt er að það eigi rót sína í upplifuninni innan skólans og andanum innan veggja hans.
Samhengið innan hvers skóla er einstakt hvað varðar t.d. samsetningu nemendahópa, stærð og reynslu og því er ekki til nein alhliða töfralausn fyrir vel heppnað þróunarstarf. Engu að síður er mikilvægt að hafa í huga að langvarandi þróunarstarfi þarf stöðugt að sinna og brýnt er að það eigi rót sína í upplifuninni innan skólans og andanum innan veggja hans – illa ígrunduð eða tilbúin úrræði hafa sjaldnast langvarandi áhrif.
4. stig: Stjórnendur skólans
Færniþróun í skólastarfi kallar á að skólastjórnendur hafi skýra og markvissa sýn. Forvarnarstarf skólans er þar engin undantekning. Til að úrræði skólans hafi tilætluð áhrif er nauðsynlegt að stjórnendur séu virkir þátttakendur í verkefninu og styðji það af heilum hug.
Á þessu stigi er einnig hugað að heildaráætlunum og langtímaverkefnum. Vinnan með skipulag skólastarfsins eða aðgerðaráætlun gegn særandi hegðun/einelti eru mikilvægir þættir í forvarnarstarfinu.
5. stig: Samstarfsaðilar skólans
Skólinn er ekki til í tómarúmi. Í forvarnarstarfinu er mikilvægt að virkja foreldra og aðra samstarfsaðila í nærumhverfinu. Samstarf á milli skóla sem deila reynslu sinni ýtir undir hvers kyns skólaþróun, ekki síst í forvarnarstarfi. Stuðningur frá utanaðkomandi aðilum sem fást við færni af ýmsu tagi getur einnig haft jákvæð áhrif, að því tilskildu að þessir aðilar taki mið af raunverulegum aðstæðum í skólanum frekar en tilbúnum og almennum lausnum.
Skólinn er ekki til í tómarúmi og því er mikilvægt að virkja foreldra og aðra samstarfsaðila í nærumhverfinu inn í forvarnarstarfið.
Það felast ekki andstæðir pólar í þekkingar- og færnimiðlun annars vegar og undirbúningi fyrir skólastofuna eða skólaumhverfið almennt. Öllum er nauðsynlegt að búa bæði yfir þekkingu til að koma auga á áreiti og særandi hegðun og færni í að fyrirbyggja, takast á við og vinna gegn slíkri hegðun. Færniþróun hvers skóla krefst þess að stjórnendur og allt starfsfólk taki þátt í þróunarferli eigin vinnustaðar þar sem markmiðið er að efla lýðræðislegar stoðir skólans og sporna þannig gegn hegðun og viðhorfum sem fela í sér mismunun.