Forvarnarstarf í skólum

Hvaða áskorunum stendur skólinn frammi fyrir? Hvaða mynstur blasa við hvað varðar aðlögun, útilokun og jaðarsetningu? Forvarnarstarf skólans gagnvart andúð á tilteknum hópum verður að byggja á því sem kennarar, stjórnendur og nemendur skólans telja mikilvægt. Hér er að finna lesefni um það hvernig forvarnarstarfið getur orðið annað og meira en tímabundið átaksverkefni: Hvernig hægt er að nota hvert námsfag fyrir sig og skólastarfið í heild sinni til að vinna gegn aðgreiningu og skapa umhverfi þar sem gagnrýnin hugsun ræður ríkjum.

  • Fordómar fela í sér áskorun gagnvart menntun og lýðræði

    Flýtivalmynd

    Fordómar fela í sér áskorun gagnvart menntun og lýðræði

    Fordómar og andúð á tilteknum hópum fela í sér margþætta áskorun gagnvart skólastarfinu, allt frá áreiti í skólastofunni til þess meginmarkmiðs skólastarfsins að undirbúa nemendur fyrir þátttöku í samfélagi morgundagsins.

    Í fyrsta lagi ber skólanum skylda til þess að skapa heilbrigt félagslegt umhverfi með markvissum hætti. Samkvæmt grunnskólalögum eiga allir nemendur að geta fundið til öryggis, án aðgreiningar. Fordómar og andúð á tilteknum hópum leiða hins vegar bæði til jaðarsetningar og óöryggis. Þegar andúð á tilteknum hópum kemur fram í særandi orðum eða hegðun berð þú sem kennari tilkynninga- og aðgerðaskyldu, auk þess sem skólanum ber að búa yfir verkferlum sem segja til um hvernig þú átt að bregðast við.

    Í öðru lagi taka nemendur einnig þátt í samfélaginu í frítíma sínum; með íþróttaiðkun, á netinu, á félagslegum viðburðum o.s.frv. Á þessum sviðum getur skólinn einnig haft áhrif á nemendur og hvatt þá til hegðunar án aðgreiningar, þótt þar sé formleg skylda skólans ekki eins afgerandi og í kennslunni sjálfri.

    Í þriðja lagi er tilgangur skólans sá að nemendur þrói með sér þau gildi, hegðun, þekkingu og færni sem nauðsynleg eru fyrir samfélag framtíðarinnar. Í grunnskólalögunum er þetta orðað með afgerandi og ljóðrænum hætti þar sem skólanum er ætlað að „opna dyrnar að heiminum og framtíðinni“. Í innganginum koma fram fleiri lykilorð, m.a. lýðræðislegt samfélag, fjölbreytileiki og vísindalegur hugsunarháttur.

  • Meginreglur Dembra um forvarnir

    Flýtivalmynd

    Hvaða aðferðir skila árangri í forvörnum gegn gyðingahatri, kynþáttafordómum og ólýðræðislegum viðhorfum? Hvernig geta kennarar og skólinn sjálfur eflt starfið með skólaumhverfi án aðgreiningar? Dembra byggir á vísindalegum svörum við þessum tveimur spurningum og þau eru tekin saman í fimm meginreglum Dembra:

    Þátttaka og lýðræði sem vörn gegn mismunun

    Útilokandi viðhorf og fordómar „okkar“ gagnvart „hinum“ styrkja okkar eigin sjálfsmynd og þá tilfinningu að við tilheyrum hópi. Þetta þýðir að forvarnarstarf verður að byggja á félagslegu umhverfi sem er án aðgreiningar og byggir ekki á neikvæðum hugmyndum um aðra einstaklinga. Þess vegna eru vinna skólans með lýðræði, nemendavirkni og þátttöku allra lykilþættir í forvörnum gegn jaðarsetningu, mismunun og áreitni.

    Þekking, gagnrýnin hugsun og forvitni

    Andúð á tilteknum hópum byggir bæði á nýjum og gömlum hugmyndum í samfélaginu. Mikilvægt er að hafa þekkingu á þessum hugmyndum til að geta lesið í, komið í veg fyrir og brugðist við aðstæðum þar sem þessar hugmyndir eru tjáðar innan skólans. Forvitni er mikilvægur eiginleiki sem hvetur einstaklinginn til að afla sér nýrrar þekkingar þegar hann mætir nýjum og jafnvel ókunnugum fyrirbærum eða aðstæðum. Viðhorf sem fela í sér aðgreiningu og öfgakennd hugmyndafræði byggir á staðalímyndum og einsleitri heimsmynd sem gjarnan einkennist af samsæriskenningum. Gagnrýnin hugsun og ígrundun ögrar rótgrónum viðhorfum og dregur fleiri hliðar þeirra fram í dagsljósið. Þekking, forvitni og gagnrýnin hugsun eru mikilvægir liðir í forvörnum og af því leiðir að kjarnastarfsemi skólans – þar sem unnið er með færnimarkmið og grundvallarþekkingu – hafi forvarnargildi í sjálfu sér.

    Fjölmenningarfærni

    Brýnt er að nemendur og kennarar geti túlkað, tjáð sig og hegðað sér með fjölbreytileikann að leiðarljósi. Meginmarkmið forvarna er ekki að geta greint á milli hópa og skilið hvað skilur þá að, eins og kennslufræði fjölmenningar í Bretlandi boðaði á 10. áratug síðustu aldar. Í fjölmenningarfærni felst markmiðið frekar í fúsleika til að koma auga á, viðurkenna og ígrunda það sem er líkt og það sem er ólíkt, bæði á milli hópa og innan þeirra.

    Hlutdeild og formleg framkvæmd

    Kennarar og skólastjórnendur þurfa sjálfir að skilgreina þarfir eigin skóla út frá sinni starfsreynslu og lífinu í skólanum. Til að geta þróað hugmyndafræðina er brýnt að tileinka sér hana af heilum hug og hver skóli ber ábyrgð á því til hvaða aðgerða hann grípur. Nauðsynlegt er að festa forvarnarstarfið í sessi í langtímaáætlunum skólans og fella það að annarri starfsemi svo það haldi áfram að þróast. Það hvetur kennara til dáða og ýtir undir að þeir prófi sig áfram ef boðið er upp á kennslugögn, aðferðafræði og kennslufræðiefni sem kennurum finnst viðeigandi og hentar í hefðbundna kennslu.

    Skólinn sem ein heild

    Forvarnarstarf skólastjórnenda og kennara skilar mestum árangri ef það er sjálfsagður hluti af öllum þáttum skólastarfsins, allt frá þekkingu, færni og viðhorfum hvers einstaklings til kennsluhátta, stjórnenda og samstarfsaðila skólans, t.d. foreldra og annarra umsjónaraðila á svæðinu.

     

  • Fimm stig þróunar innan skóla

    Flýtivalmynd

    Líkurnar á því að vel takist til í forvarnarstarfi skólans aukast mjög, bæði til lengri og skemmri tíma, ef stjórnendur og starfsfólk taka höndum saman um að þróa heildarþekkingu skólans, viðhorf og færni hvað varðar nám, kennslu og samstarf. „Skólinn“ er í þessu samhengi allir þeir sem tengjast skólanum á einn eða annan hátt, skólastjórnendur, kennarar, annað starfsfólk, nemendur og samstarfsaðilar á borð við foreldra og aðra á svæðinu.

    Færðar hafa verið sönnur á áhrif heildstæðrar skólaþróunar af þessu tagi – sem einnig er kölluð færniþróun skólastarfs. Rannsóknir á færniþróun skólastarfs hafa leitt í ljós marga ólíka þætti sem saman stuðla að varanlegum breytingum (sjá m.a. Postholm 2012, Flygare o.fl. 2011).

    Í Dembra er notast við fimm stiga líkan fyrir þróun skólastarfs:

    1. stig: Færni kennara og skólastjórnenda

    Forvarnir hefjast með uppfræðslu einstaklingsins og þeirri meginreglu að við þurfum að læra um, til að og með. Það er mikilvægt að læra um gyðingahatur, kynþáttafordóma og aðra mismunun til að geta komið í veg fyrir slíka hegðun og viðhorf í daglegu lífi í skólanum. Á sama tíma er mikilvægt að koma í veg fyrir mismunun með lýðræðislegum meginreglum á borð við opnar umræður, þátttöku og samráði við ákvarðanatöku.

    Kennarar læra mest af því að ígrunda eigin kennsluaðferðir og eigin reynslu. Þetta kallar á að kennarar séu fúsir til að breyta eigin hegðun og verklagi út frá nýjum upplýsingum og breyttum viðhorfum. Þetta á einnig við um forvarnarstarfið og því er afar brýnt að innan kennarahópsins ríki góður félagsandi og fræðslumenning.

    2. stig: Kennslan í skólastofunni

    Skólastofan á að vera öruggt svæði fyrir skoðanaskipti og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum. Samhliða lýðræðislegum gildum á borð við þátttöku óháð uppruna, gagnkvæma virðingu og opnar umræður er mikilvægt að nota virkar kennsluaðferðir sem byggja á þekkingu, ígrundun og góðum samskiptum.

    Skólastofan á að vera öruggt svæði fyrir skoðanaskipti og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum

    Að vinna með færnimarkmiðin í kennslunni er kjarnastarfsemi hvers skóla. Þessi vinna er einnig mikilvægur liður í forvörnum gegn andúð á tilteknum hópum. Í kennslunni gefst tækifæri til að nota verkefni og námsefni þar sem unnið er með forvarnir gegn fordómum, t.d. námsefnið á Dembra. En forvarnarstarfið á sér einnig stað í annarri kennslu, t.d. þegar kennarinn ýtir undir þátttöku nemenda, hlustar á alla nemdendur, gefur þeim færi á að hafa bein áhrif og þjálfar með þeim gagnrýna hugsun í öllum námsgreinum.

    3. stig: Skólamenning

    Opin og lýðræðisleg skólamenning þar sem ríkja sterk tengsl á milli stjórnenda, kennara, nemenda og foreldra er algert lykilatriði hvað varðar forvarnar- og þróunarstarf hvers skóla.

    Langvarandi þróunarstarfi þarf stöðugt að sinna og brýnt er að það eigi rót sína í upplifuninni innan skólans og andanum innan veggja hans.

    Samhengið innan hvers skóla er einstakt hvað varðar t.d. samsetningu nemendahópa, stærð og reynslu og því er ekki til nein alhliða töfralausn fyrir vel heppnað þróunarstarf. Engu að síður er mikilvægt að hafa í huga að langvarandi þróunarstarfi þarf stöðugt að sinna og brýnt er að það eigi rót sína í upplifuninni innan skólans og andanum innan veggja hans – illa ígrunduð eða tilbúin úrræði hafa sjaldnast langvarandi áhrif.

    4. stig: Stjórnendur skólans

    Færniþróun í skólastarfi kallar á að skólastjórnendur hafi skýra og markvissa sýn. Forvarnarstarf skólans er þar engin undantekning. Til að úrræði skólans hafi tilætluð áhrif er nauðsynlegt að stjórnendur séu virkir þátttakendur í verkefninu og styðji það af heilum hug.

    Á þessu stigi er einnig hugað að heildaráætlunum og langtímaverkefnum. Vinnan með skipulag skólastarfsins eða aðgerðaráætlun gegn særandi hegðun/einelti eru mikilvægir þættir í forvarnarstarfinu.

    5. stig: Samstarfsaðilar skólans

    Skólinn er ekki til í tómarúmi. Í forvarnarstarfinu er mikilvægt að virkja foreldra og aðra samstarfsaðila í nærumhverfinu. Samstarf á milli skóla sem deila reynslu sinni ýtir undir hvers kyns skólaþróun, ekki síst í forvarnarstarfi. Stuðningur frá utanaðkomandi aðilum sem fást við færni af ýmsu tagi getur einnig haft jákvæð áhrif, að því tilskildu að þessir aðilar taki mið af raunverulegum aðstæðum í skólanum frekar en tilbúnum og almennum lausnum.

    Skólinn er ekki til í tómarúmi og því er mikilvægt að virkja foreldra og aðra samstarfsaðila í nærumhverfinu inn í forvarnarstarfið.

    Það felast ekki andstæðir pólar í þekkingar- og færnimiðlun annars vegar og undirbúningi fyrir skólastofuna eða skólaumhverfið almennt. Öllum er nauðsynlegt að búa bæði yfir þekkingu til að koma auga á áreiti og særandi hegðun og færni í að fyrirbyggja, takast á við og vinna gegn slíkri hegðun. Færniþróun hvers skóla krefst þess að stjórnendur og allt starfsfólk taki þátt í þróunarferli eigin vinnustaðar þar sem markmiðið er að efla lýðræðislegar stoðir skólans og sporna þannig gegn hegðun og viðhorfum sem fela í sér mismunun.

  • Lýðræði í verki og skólinn sem ágreiningssamfélag

    Öll vinna skólans með lýðræði, nemendavirkni og þátttöku hefur jákvæð áhrif á forvarnarstarfið. Það á ekki að nemendum lýðræðismenningu – þar sem rödd allra fær að heyrast og þar sem meirihlutinn tekur einnig mark á minnihlutanum – heldur eiga nemendur að upplifa lýðræðismenningu dag hvern í skólanum. Það er hlutverk skólans að uppfræða nemendur um lýðræði til að þeir geti tekið þátt í samfélagi framtíðarinnar. En lýðræði er í sjálfu sér mikilvæg uppspretta náms. Með því að nota lýðræðislegar aðferðir geta nemendur meðal annars lært að bera virðingu fyrir því sem greinir okkur að, að engan eigi að útiloka frá þátttöku og að vilja berjast gegn aðgreiningu og útilokun.

    Skólinn sem ágreiningssamfélag

    Lýðræði birtist ekki alltaf í einingu og samhljómi; það getur líka falið í sér átök um auðlindir, hagsmunaárekstra og málamiðlanir. Á margan hátt er skólinn eins og smækkuð mynd af lýðræðislegu samfélagi. Lars Laird Iversen hefur gefið þessu heitið „átakasamfélag“; hópur þar sem ríkir félagsleg samkennd og eining, þrátt fyrir að innan hans ríki jafnvel djúpstæður ágreiningur. Iverson hefur bent á að í skólanum sem stofnun bjóðist einmitt einstakt tækifæri til að rækta félagslega samkennd, þrátt fyrir ágreiningsefni. Í bekknum gefst nemendum færi á að þróa með sér sterka sjálfsmynd sem byggist ekki á hatri og fordómum gagnvart öðrum.

     

  • Viðbrögð við hatursorðræðu í skólastofunni

    Í forvarnarstarfinu hefur mikilvægi þátttöku án aðgreiningar einkar mikið vægi þegar kemur að því hvernig bregðast skal við fordómafullri tjáningu í bekknum. Ef einhver verður fyrir særandi tjáningu skal stöðva hana umsvifalaust. En aðilann sem verður fyrir fordómafullri tjáningu eða hatursorðræðu er alls ekki alltaf að finna í skólastofunni. Í þeim tilfellum er brýnt að kennarinn tryggi að nemandanum sem tjáði sig með særandi hætti sé boðin þátttaka, frekar en að hann sé útilokaður, bæði í fyrstu viðbrögðum kennarans og áframhaldandi meðferð málsins innan skólans. Oft eru skammir ekki heppilegustu viðbrögðin; þótt kennaranum geti þótt mikilvægt að það komi skýrt fram hvaða hegðun er í lagi og hvaða hegðun er það ekki er óvíst að slík viðbrögð séu besta leiðin til að fyrirbyggja fordóma – jafnvel þvert á móti.

    Viðbrögð kennarans við hatursorðræðu í skólastofunni eiga að fara eftir því hvort nemandinn upplifi öryggi og er hluti af hópnum.

    Í greininni „Kløkt og fordom. Om holdingsendring i klasserommet“ fjallar Solveig Moldrheim um það hvernig kennarar geta brugðist við hatursorðræðu. Hún heldur því fram að viðbrögð kennarans eigi að fara eftir því hvort nemandinn upplifir öryggi og er hluti af hópnum eða hvort hann er jaðarsettur og útilokaður. Í fyrra tilfellinu getur verið við hæfi að fordæma hatursorðræðuna með afgerandi hætti. Í síðara tilfellinu getur slík tjáning ýtt nemandanum enn lengra í burtu og skapað grundvöll þar sem fordómarnir aukast enn frekar. Þess í stað leggur hún til að kennarinn grafist fyrir um ástæður eða ætlan nemandans eða önnur undirliggjandi viðhorf sem liggja að baki orðum hans. Þannig getur kennarinn tekið tjáningu nemandans til greina, án þess að leggja blessun sína yfir þá hatursorðræðu sem hann notaði til að tjá sig.

Undervisningsopplegg