Fordómar og notkun staðalímynda tengjast sjálfsmynd okkar; hvaða augum við lítum okkur sjálf. Þess vegna erum við treg til að breyta viðhorfum okkar þegar við fáum nýjar upplýsingar. Raunar er stundum eins og þekking hafi ekkert að segja þegar kemur að grunndvallarviðhorfum okkar gagnvart öðru fólki.
Það hvernig gáfaðir, vel menntaðir og upplýstir einstaklingar fundu upp á og framkvæmdu hræðilega glæpi í síðari heimsstyrjöldinni er gjarnan tekið sem dæmi um það hvernig sannleikurinn (þekkingin) leiðir ekki alltaf til góðs.
Samskipti og tengsl á milli einstaklinga úr ólíkum hópum er áhrifaríkasta leiðin til að draga úr fordómum.
Gordon Allport hefur bent á að þekking breyti ekki viðhorfum þeirra sem eru fordómafullir. Að hans mati er það blanda af vitneskju og beinni upplifun af öðrum manneskjum – ekki síst í gegnum samstarf – sem spornar gegn fordómum. Þetta er grunnurinn að tengslakenningu hans, en samkvæmt henni eru samskipti og tengsl á milli einstaklinga úr ólíkum hópum áhrifaríkasta leiðin til að draga úr fordómum.
Þekking hefur sitt að segja
Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að þekking skipti máli. Dæmi um þetta er ICCS-rannsóknin (e. International Citizenship and Civic Education Study) sem framkvæmd var á unglingum í grunnskóla árið 2009. Í norska hluta rannsóknarinnar fundu rannsakendur fylgni á milli þekkingar og nemendavirkni, án þess þó að vitað væri hvor þátturinn hefði áhrif á hvorn.
Einnig benda þeir á að í lýðræðissamfélagi geti valdið vandræðum ef þekking hefur of mikið vægi þegar kemur að því að mynda sér skoðun. Vegna þess að einstaklingar búa yfir mismikilli þekkingu myndi slík afstaða leiða til þess að upplýstur minnihluti fengi öllu ráðið. Gott er að hafa þetta í huga í framhaldinu, þar sem við færum rök fyrir því að leggja eigi megináherslu á þekkingu, gagnrýna hugsun og forvitni.
Við þurfum fyrst að upplifa að við tilheyrum hópnum. Aðeins þá getum við meðtekið nýja þekkingu sem storkar viðteknum hugmyndum okkar um heiminn.
Þegar einstaklingurinn finnur til öryggis og honum líður vel með eigin gildi, sjálfsmynd og tengsl hefur þekking meira vægi en þegar einstaklingurinn finnur til óöryggis. Sumpart er þetta spurning um hvort kemur á undan. Við þurfum fyrst að upplifa að við tilheyrum hópnum. Aðeins þá getum við meðtekið nýja þekkingu sem storkar viðteknum hugmyndum okkar um heiminn. Við þurfum að upplifa ákveðið sjálfstraust til að vera fær um sjálfsígrundun sem ögrar staðalímyndum okkar og fordómum.
Hvernig þekking?
Þekkingin er mikilvæg, en það hvernig þekkingu nemendur öðlast er að minnsta kosti jafn mikilvægt. Mikilvægur þáttur í viðurkenningu er að koma auga á það sem okkar hópur á sameiginlegt með öðrum hópum. Til að koma í veg fyrir hlutdrægni í upplifun okkar af öðrum er mikilvægt að hafa meðvitund um innbyrðis fjölbreytileika, þ.e.a.s. að búa yfir vitneskju sem ögrar þeirri hugmynd að aðrir hópar séu einsleitir innbyrðis.
Með þekkingu er hægt að leiðrétta yfirborðskennd viðhorf.
Útilokun og fordæming gagnvart öðrum stafar ekki alltaf af rótgrónum viðhorfum. Hversdagslegri og yfirborðskenndari viðhorf og yfirlýsingar geta einnig haft fordæmingu í för með sér. Margt bendir til þess að þekking og gagnrýnin hugsun geti haft fljótvirkari og meiri áhrif.
Þetta var ein niðurstaðan í skýrslunni „Nemendur þurfa að læra að greina á milli“(e. Students must learn to make distinctions) frá árinu 2006, en þar var til umfjöllunar rannsókn um gyðingahatur og óttann við múslima hjá dönskum grunnskólaunglingum. Í viðtölum við kennara kom fram að nokkrir nemendur sem ættaðir voru frá Austurlöndum nær tjáðu afar neikvæð viðhorf gagnvart Gyðingum og Ísraelsríki. Samkvæmt lýsingu kennaranna virtust þessi viðhorf vera ómeðvituð, eins og þetta væru lærð viðhorf að heiman sem nemendurnir hefðu ekki sjálfir ígrundað. Í máli margra kennara kom einnig skýrt fram að viðhorf nemendanna hefðu gjörbreyst eftir að þeir fræddust um gyðingahatur, gyðingdóm og Ísrael.
Þegar kemur að viðhorfsbreytingum getur þekking og gagnrýnin hugsun haft meiri og fljótvirkari áhrif en fræðsla um það hvernig fordómar myndast.
Áhugaverður punktur úr þessari rannsókn er sá að ekki er sjálfgefið að almennar kennsluaðferðir um það hvernig fordómar myndast eða um baráttuna gegn kynþáttafordómum dragi úr því sem rannsakendur kalla „ómeðvitað gyðingahatur“. Það sem veitti nemendunum nýja innsýn og skilning voru óhrekjanlegar staðreyndir um einmitt þá fordóma sem bjuggu í nemendunum sjálfum.
Áreiðanleg þekking um ólíkar gerðir fordóma er einnig mikilvæg til að öðlast skilning á samhengi þess sem gengur á innan skólans. Til að geta komið auga á og greint viðhorf sem þú rekst á innan skólans og í daglegu lífi er æskilegt að þú, bæði sem kennari og samfélagsþegn, þekkir til helstu strauma í sögulegu samhengi og helstu þátta umræðunnar hverju sinni.
Lífssýn sem byggir þannig á raunverulegri þekkingu er í hrópandi mótsögn við ýmsar samsæriskenningar. Hægt er að skilgreina samsæriskenningu sem ósveigjanlega og altæka heimssýn sem breytist ekki í ljósi nýrra upplýsinga. Þess í stað eru nýju upplýsingarnar túlkaðar þannig að þær passi við ósveigjanlega kenninguna.
Höfundur: Rolf Mikkelsen