Innræting öfgaskoðana, ofstæki og ofbeldi

Við lítum á hryðjuverk og ofbeldisfullt ofstæki sem skelfilega ógn við nútímasamfélög, hvort sem það eru hryðjuverkin í Útey þann 22. júlí 2011, atburðirnir í Nice og Berlín árið 2016 eða látlausar fréttir af hryðjuverkum í Istanbúl, Beirút, Kabúl og fleiri borgum. Það er ekki hlutverk skólans að berjast gegn hryðjuverkum, en þó getur hann mögulega stuðlað að því að færri einstaklingar láti heillast af öfgasamtökum og boðskap þeirra.

Hér geturðu kynnt þér betur hvað felst í innrætingu öfgaskoðana og ofbeldisfullu ofstæki. Sú þekking er veigamikil en þó er hún ekki mikilvægasta verkfæri kennarans í baráttunni gegn innrætingu öfgaskoðana. Kennarinn býr þegar yfir því verkfæri í gegnum faglegt starf sitt: Getunni til að upplifa hvern nemanda sem einstakling, mæta honum og setja sig í hans spor.

  • Innræting öfgaskoðana, ofstæki og ofbeldi

    Flýtivalmynd

    Í dag er lýsingin „innræting öfgaskoðana“ einkum notað til að útskýra ýmsa þætti sem eiga sér stað „áður en sprengjan springur“: Ferlið sem leiðir til þess að einstaklingar og hópar fremja hryðjuverk. Almennt er fólk sammála því að berjast þurfi gegn innrætingu öfgaskoðana. Það ríkir hins vegar enginn einhugur um það hvað innræting öfgaskoðana felur nákvæmlega í sér og hvaða hlutverki hún gegnir sem orsakaþáttur í hryðjuverkum. Mest skilur á milli þeirra sem tengja innrætingu öfgaskoðana við fúsleika til að beita ofbeldi og þeirra sem skilja hugtakið á almennari hátt, s.s. sem tilhneigingu til að trúa á öfgafullri hreyfingar og hugmyndafræði.

    Ofstæki, innræting öfgaskoðana og þátttaka

    Ekki liggur fyrir skýrt samhengi á milli þess að hafa öfgafullar skoðanir gagnvart umheiminum – veruleikanum – og að búa yfir vilja og getu til að beita aðra ofbeldi. Samtök sem beita hryðjuverkum til að ná fram markmiðum sínum nota oftast hugmyndafræði sína til að réttlæta ofbeldið. Samt sem áður grípa samtök gjarnan til ofbeldisaðgerða í kjölfar atburðarásar þar sem þeim hefur mistekist að afla málflutningi sínum stuðnings eftir öðrum leiðum.

    Sumir hryðjuverkamenn aðhyllast ekki öfgaskoðanir. Öðrum manneskjum hafa verið innrættar öfgaskoðanir en þær lifa engu að síður í sátt og samlyndi í lýðræðislegum samfélögum.

    Einnig eru mörg dæmi þess að einstaklingar sem ekki aðhyllast öfgaskoðanir fremji hryðjuverk. Á sama hátt hafa margar manneskjur öfga- eða ofstækisfullar skoðanir en beita samt engu ofbeldi heldur lifa í sátt og samlyndi í lýðræðislegum samfélögum.

    Því er gagnlegt og mikilvægt að greina á milli innrætingar öfgaskoðana og þátttöku. Innræting öfgaskoðana er ferli sem leiðir til þess að einstaklingar breyta smám saman afstöðu sinni og sýn á samfélag sitt og leita uppi ofstækisfull viðhorf, hugmyndir og skoðanir. Þetta ferli getur leitt til þess að viðkomandi styður ofbeldi annarra, réttlætir það eða kemur því til varnar (ofstæki án ofbeldis) en einnig til þess að viðkomandi tekur þátt og fremur sjálf(ur) ofbeldisverk til að breyta samfélagi sínu (ofstæki með ofbeldi).

    Innræting öfgaskoðana er ferli sem leiðir til þess að einstaklingar breyta smám saman afstöðu sinni og sýn á samfélag sitt og leita uppi ofstækisfull viðhorf, hugmyndir og skoðanir.

    Hægt er að skilgreina ofstæki, hvort sem því fylgir ofbeldi eða ekki, sem öfgafullar hugsanir, skoðanir, hugmyndir og hegðun sem tengjast gjarnan alræðishugmyndafræði. Orðin „róttækni“ og „ofstæki“ eru gjarnan notuð jöfnum höndum. Munurinn er þó sá að hugtakið róttækni getur einnig haft jákvæða og virðingarverða merkingu. Í vinstripólitík hefur þetta orð yfirleitt jákvæðan blæ því það er notað um stjórnmálafólk og -stefnur sem tekur þörfina á breyttum valdamynstrum í samfélaginu alvarlega. Í samhengi við trúarbrögð líta margir á orðið sem jákvæða löngun til að snúa aftur til hins upprunalega boðskapar sem trúarbrögðin boðuðu.

    Orðið „róttækur“

    Í sögulegu samhengi hefur orðið „róttækur“ haft mismunandi merkingu, allt frá því að lýsa rót einhvers (því náttúrulega, grunnforsendunum) til þess að lýsa því sem aðgreinir sig frá því eðlilega (staðlinum, því venjulega, því hefðbundna, viðmiðum samfélagsins) (Mandel 2009).

    Enska orðið „radical“ er dregið af latneska orðinu „radix“, sem þýðir rót.

    Enska orðið „radical“ er dregið af latneska orðinu „radix“, sem þýðir rót. Orðið vísar því til einhvers grundvallarþáttar eða kjarna. Orðið „radical“ er t.d. útskýrt á þennan hátt í Oxford Advanced Learner’s Dictionary: „Það sem tengist grundvallareiginleikum einhvers eða hefur áhrif á þá“.

    Á 19. öld víkkaði merking orðsins út og náði einnig utan um það sem gæti breytt rótum einhvers (Mandel 2009: 104). Orðið þróaðist enn frekar í lok 19. aldar og upphafi 20. aldar og þá fór „róttækur“ að vísa til umfangsmikilla breytinga á stjórnmálasviðinu – umbóta sem náðu niður að rótum.

    Íslensk orðabók skýrir orðið róttækur sem: „Sá sem vill breyta einhverju frá rótum; róttækur flokkur; róttækur í skoðunum“.

    Á sama tíma var „róttækur“ notað um þá einstaklinga innan stjórnmálaflokks sem tala máli öfgafullra skoðana eða styðja þær. Enska orðið „extremism“ er dregið af latneska orðinu „extremus“ sem þýðir „það ysta“, „það fjarlægasta“ og/eða „það versta“ (Gule 2012: 15).

    Í jaðaríþróttum getur orðið „róttækur“ lýst einhverju jákvæðu sem felur samt í sér áhættu eða jaðarhegðun.

    Orðið „radical“ hefur fengið ýmsar merkingar í slangri á öðrum tungumálum, einkum á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar (Mandel 2009: 105). Sú notkun er rakin til brimbrettafólks og er vel þekkt í dag í ýmsum jaðaríþróttum. Orðið róttækur getur þá lýst einhverju jákvæðu sem felur samt í sér áhættu eða jaðarhegðun.

    Þessar ólíku skilgreiningar geta átt sinn þátt í því að róttækt fólk lítur hugtakið jákvæðum augum og þar með sínar eigin hugsanir og gjörðir. Ungu kristnu fólki getur t.d. þótt jákvætt að vera róttækur, í þeirri merkingu að róttæknin sé leit að því „eðlilega“ eða „kjarnanum“ í trúarbrögðunum.

    Róttækni sem afstætt fyrirbæri

    Túlkun okkar á hugtökunum „róttækni“ og „öfgaskoðanir“ ræðst af því hvað við lítum á sem venjulegt, hófsamt eða mitt á milli. Þetta hefur í för með sér að skilningur okkar á þessum fyrirbærum verður að einhverju leyti alltaf huglægur, afstæður og háður samhengi (Coolsaet 2016; Mandel 2009).

    Túlkun okkar á orðinu „öfgaskoðanir“ ræðst af því hvað við álítum vera eðlilegt. Í dag þætti t.d. öfgafullt að neita konum um kosningarétt eða fara í fóstureyðingu, en á 19. öldinni hefði þótt öfgafullt að samþykkja þessi atriði. Tjáningarfrelsið er annað slíkt dæmi. Í lýðræðisríkinu Noregi telst tjáningarfrelsið vera mikilvægur þáttur en í löndum á borð við Sádí-Arabíu og Norður-Kóreu getur iðkun tjáningarfrelsis talist til öfgahegðunar. Peter Neumann varpar ljósi á þetta með því að umorða þekkt orðatiltæki: „Hryðjuverkamaður eins er frelsishetja annars“ (2013: 878).

    Það er mikilvægt að skilja að róttækni er ekki hættuleg í sjálfu sér. Þetta á ekki síst við um leitandi ungmenni sem þreifa sig stundum áfram með því að tjá viðhorf sem geta talist til jaðarskoðana.

    Það er mikilvægt að skilja að róttækni er ekki hættuleg í sjálfu sér.

    Hvar liggja þá mörkin á milli jákvæðrar og neikvæðrar róttækni? Neikvæð róttækni felur það oft í sér að tileinka sér alræðishugmyndafræði sem getur skaðað samfélagið og reynst því hættuleg. Jákvæð róttækni getur falið í sér mikilvæga baráttu gegn óréttlátum viðmiðum eða stöðlum, t.d. í jafnréttisbaráttu.

    Hættan á rangri flokkun

    Það er einnig mikilvægt að kennarar skilji hvaða alvarlegu afleiðingar sértækur og afstæður skilningur á hugtakinu getur haft fyrir saklaust fólk sem er flokkað ranglega sem einstaklingar með róttækar öfgaskoðanir. Einstrengingsleg og illa ígrunduð tortryggni sem byggir á trúarskoðunum og þjóðerni getur stuðlað að enn meiri róttækni (Veldhuis og Staun 2009: 19). Þess vegna er brýnt að við séum vandvirk og nákvæm – eins og hægt er – þegar við freistum þess að skilja og útskýra róttækni. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess að hugtökin innræting öfgaskoðana, róttækni, ofstæki og hryðjuverkastarfsemi eru oft notuð hvert um annað.

    Einstrengingsleg og illa ígrunduð tortryggni sem byggir á trúarskoðunum og þjóðerni getur stuðlað að enn meiri róttækni.

    Fyrirliggjandi skilgreiningar á hugtakinu hafa fært fagfólki, fjölmiðlum og almenningi umgjörð sem styðjast má við til að skilja innrætingu öfgaskoðana og koma í veg fyrir hana. Á sama tíma hafa sumar þessara skilgreininga orðið til þess að sjónum er ekki beint að vissum gerendum, hugmyndum og aðgerðum. Því er kennurum mikilvægt að muna að bæði fólk og hópar sem innrætt hefur verið róttækni geta verið afar fjölbreyttir. Hugtakið er m.a. notað sem tilvísun í róttæka múslima, róttækt vinstrifólk og fólk sem tekur upp hugmyndafræði öfgahægrisins. Dæmi um það síðastnefnda er Anders Behring Breivik sem gekk í gegnum innrætingarferli öfgaskoðana þar sem hugmyndafræði öfgahægrisins lék stórt hlutverk.

     

  • Drifkrafturinn á bakvið innrætingu öfgaskoðana

    Flýtivalmynd

    Innræting öfgaskoðana fer fram með ólíkum hætti, ástæðurnar sem liggja að baki eru margþættar og ferlið getur verið breytilegt. Í þessari þróun liggur engin bein lína frá einu stigi til þess næsta.

    Það er mjög persónubundið hvað fær fólk til að aðhyllast öfgahreyfingar. Oft er rætt um félagslegar og tilfinningalegar ástæður. Innræting öfgaskoðana getur allt eins verið afleiðing af því að lenda í öfgafullum félagsskap.

    Innræting öfgaskoðana fer fram með ólíkum hætti, ástæðurnar sem liggja að baki eru margþættar og ferlið getur verið breytilegt.

    Það er hægt að greina þá ferla sem leiða til innrætingar öfgaskoðana hjá bæði einstaklingum og hópum. Ástæður sem hafa mjög afgerandi áhrif á tiltekinn einstakling geta þó að sama skapi haft lítil eða engin áhrif á annan einstakling.

    Innræting öfgaskoðana er ekki sjúkdómur

    Það getur verið freistandi að hugsa sem svo að sjúkir einstaklingar fremji hryðjuverk; fólk með geðsjúkdóm eða persónuleikaröskun af einhverju tagi. Sú er alls ekki raunin. Flestir hryðjuverkamenn eru heilsuhraustir og álíka venjulegir og skynsamir og fólk er flest.

    Flestir hryðjuverkamenn eru heilsuhraustir og álíka venjulegir og skynsamir og fólk er flest.

    Stundum á innræting öfgaskoðana sér stað hjá ungu fólki sem leitar skýringa á eigin vandamálum (Wiktorowicz 2005; ártal vantar). Aðrir eru í leit að svörum við spurningum um óréttlæti heimsins (Sageman 2004; 2008). Hvers vegna er heimurinn eins og hann er? Hvers vegna brjótast út stríð? Ástæðuna getur líka verið að finna í einlægri löngun til að finna lausnir á stórum pólitískum deilumálum. Innræting öfgaskoðana á sér þó eitt sameiginlegt einkenni: Hún þróast í samskiptum við vini eða annað fólk sem maður treystir.

    Innræting öfgaskoðana á sér stað með vináttu- og félagstengslum

    – Að umgangast róttæka einstaklinga eykur líkurnar á því að fólk myndi með sér og þrói róttækar og öfgafullar hugsanir og hegðun (Nesser 2011: 39).

    Petter Nesser stýrir rannsóknum við Rannsóknastofnun norska hersins (FFI) og hann hefur þetta að segja um samskipti við fólk með öfgafullar skoðanir: „Með réttu tengslunum er hægt að innræta hverjum sem er öfgaskoðanir, þótt sumir séu útsettari fyrir þeim en aðrir“ (Johansen og Matre 2015).

    Einstaklingar með öfgafullar skoðanir eru gjarnan nánir vinir annarra róttæklinga sem skipta þá miklu máli.

    Einstaklingar með öfgafullar skoðanir eru gjarnan nánir vinir annarra róttæklinga sem skipta þá miklu máli. Gagnkvæm tengsl og sameiginleg sjálfsmynd þeirra er því lykilatriði (Sageman 2004). Því telja margir fræðimenn að félagsleg samskipti við róttæka einstaklinga og hópa séu mikilvægur þáttur í innrætingu öfgaskoðana.

    Þó er raunin ekki sú að félagsleg samskipti við fólk með öfgaskoðanir segi til um það hvaða einstaklingar verða sjálfir róttækir – fjölmargir einstaklingar sem tengjast róttækum aðilum félagslega þróa ekki sjálfir með sér öfgaskoðanir (Ahmed 2015).

    Hvaða hlutverki gegnir bakgrunnur einstaklingsins?

    Ekki er hægt að spá fyrir um innrætingu öfgaskoðana á grundvelli bakgrunns einstaklingsins. Sjaldgæft er að fólk með öfgaskoðanir eigi eitthvað eitt ákveðið sameiginlegt með öllum í hópnum. Ólíkir hópar geta haft mismunandi sameiginleg einkenni. Fólk með öfgaskoðanir á auk þess ýmislegt sameiginlegt með fjölmörgum einstaklingum sem ekki hafa tileinkað sér öfgaskoðanir. Þess vegna er mikilvægt að fara varlega í að túlka vísbendingar um öfgaskoðanir hjá fólki.

    Fólk með öfgaskoðanir á ýmislegt sameiginlegt með fjölmörgum einstaklingum sem ekki hafa tileinkað sér öfgaskoðanir.

    Árið 2007 sýndi rannsókn á róttækum múslimum í Danmörku, Hollandi og Bretlandi t.d. að þeir sem helst aðhylltust öfgaskoðanir væru karlar undir 35 ára aldri og oftast afkomendur innflytjenda sem alist hefðu upp í úthverfum stórborga (Precht 2007). Engu að síður aðhyllist aðeins lítill minnihluti allra ungra múslima undir 35 ára aldri sem elst upp í úthverfum öfgafullar skoðanir. Þessar niðurstöður eru í samræmi við rannsókn frá árinu 2015 á meðal 40 múslimskra karlmanna í Noregi (Ahmed 2015).

    Einstaklingar með öfgafullar skoðanir koma úr ýmsum lögum samfélagsins og ekkert bendir til þess að fátækt sem slík sé drifkraftur í innrætingu öfgaskoðana (Schmidt 2013). Margar rannsóknir benda hins vegar til þess að þessir einstaklingar séu almennt illa tengdir við samfélagið, að þeir upplifi jaðarsetningu og að framtíð þeirra sé ekki björt. Þetta á við um stóran hluta þess hóps sem innrættar hafa verið öfgaskoðanir.

    Norska öryggislögreglan (PST) hefur kortlagt bakgrunn þeirra sem eiga mikil samskipti við öfgafulla íslamska hópa í Noregi. Þar eru í meirihluta ungir karlar með litla menntun, glæpaferil og lítil tengsl við atvinnulífið, en allt eru þetta þættir sem leiða til jaðarsetningar. Þeir sem snúist hafa til múhameðstrúar og einstaklingar sem fluttu til Noregs sem börn eða unglingar eru hlutfallslega í meirihluta. Meðalaldurinn er 27,5 ár og flestir þessara einstaklinga því löngu komnir af skólaaldri (PST 2016).

    Að einblína um of á trúarbrögð og þjóðerni getur leitt til mismununar og rennt stoðum undir upplifun af útilokun og jaðarsetningu.

    Jaðarsett ungmenni, einkum piltar og karlar, voru stærstur hluti þeirra sem tók þátt í starfi rasískra hópa og hægriöfgahópa í Noregi á níunda og tíunda áratug 20. aldar (Bjørgo og Gjelsvik 2015). Slíkir hópar hafa ekki verið rannsakaðir nægilega til að hægt sé að alhæfa en þýskar rannsóknir benda einnig til þess að margir í öfgahægrihópum séu bæði illa tengdir við atvinnulífið og viðriðnir glæpi (Goodwin ofl. 2012).

    Mikil áhersla á þætti í bakgrunni einstaklinga og hópa getur haft þveröfug áhrif. Að einblína um of á trúarbrögð og þjóðerni getur leitt til mismununar og rennt stoðum undir upplifun af útilokun og jaðarsetningu. Þetta getur leitt til þess að innræting öfgaskoðana staðfesti eigin tilverurétt, öfugt við það sem til stóð.

    Persónuleg áföll sem breyta hugsunarhættinum

    Flest verðum við fyrir áfalli af einhverju tagi í lífinu, hvort sem það er andlát í fjölskyldunni, alvarleg veikindi, atvinnumissir eða annað. Erfiðleikar af þessu tagi geta gert einstaklinga viðkvæma fyrir og dregið úr trú þeirra á eigin almennu viðhorf og skoðanir. Í þessari stöðu geta einstaklingarnir orðið móttækilegri fyrir nýjum hugmyndum og skoðunum og jafnvel nýrri sýn á heiminn sem færir þeim svör og lausnir á erfiðleikunum (Wiktorowicz 2005). Erfiðleikar eða áföll geta því skapað jarðveg fyrir innrætingu öfgaskoðana.

    Erfiðleikar eða áföll geta gert einstaklinga viðkvæma fyrir og dregið úr trú þeirra á eigin almennu viðhorf og skoðanir.

    Erfiðleika á stjórnmálasviðinu eða alvarlega heimsviðburði er einnig hægt að upplifa sem sálrænt áfall og slíkt getur haft siðferðilegt uppnám í för með sér. Dæmi um þetta er að stjórnmálaástand á borð við innrásina í Írak getur valdið siðferðilegu uppnámi hjá ungum múslimum í Evrópu (Sageman 2004: 2008).

    Þótt við verðum flest fyrir einhvers konar áföllum er vert að benda á að slíkt veldur aðeins öfgaskoðunum hjá litlum hluta einstaklinga. Flest lærum við að lifa með missi eða tjóni sem við verðum fyrir; við fáum skýringar og öðlumst sátt í gegnum þær. Við notum yfirleitt skynjun okkar og skilning á umheiminum og tilverunni til að finna lausnir á þeim erfiðleikum sem við göngum í gegnum. Þetta þýðir að erfiðleikar og áföll þurfa ekki endilega að leiða til breytinga (Wiktorowicz 2005; 20).

    Hjá sumum einstaklingum leiða áföll til þess að fólk tekur upp nýjan lífsstíl, nýja hugmyndafræði og ný viðhorf.

    Hjá sumum einstaklingum leiða áföll til þess að fólk tekur upp nýjan lífsstíl, nýja hugmyndafræði og ný viðhorf. Sumir máta sig við hugmyndafræði og hugsunarhátt af ýmsu tagi áður en þeir taka aftur upp fyrri hætti. Hjá öðrum verða breytingar af völdum áfalla eða erfiðleika hins vegar varanlegar. Í báðum tilfellum er innræting öfgaskoðana aðeins einn möguleiki af mörgum sem eru fyrir hendi. Við vitum t.d. að mörg ungmenni í minnihlutahópum verða fyrir mismunun en aðeins lítill hluti þeirra fer að aðhyllast öfgafullar skoðanir og hugmyndir.

    Innan sálfræðinnar er hugtakið „seigla“ notað um getu okkar til að fást við áföll og erfiðleika, getuna til að jafna sig – um styrk okkar og þrautseigju. Þetta mætti líka kalla „mótstöðuafl“, s.s. getu einstaklingsins til að ná jafnvægi á ný eftir að hafa misst fótanna. Til að draga úr neikvæðum áhrifum áfalla, hvort sem það er innræting öfgaskoðana eða aðrir erfiðleikar, er mikilvægt að styrkja þessa seiglu, getuna til að jafna sig og ná sér. Þetta er hægt að gera með því að æfa ígrundun og gagnrýna hugsun og með því að vera hluti af öruggum félagsskap. Í kaflanum um forvarnarstarf í skólum er að finna hagnýtar aðferðir í þessum efnum.

    Innræting öfgaskoðana – með og án hugmyndafræði

    Samtök og hópar sem nota hryðjuverk sem baráttuaðferð nota gjarnan hugmyndafræði til réttlætingar á gjörðum sínum. Hugmyndafræðin er þó aðeins mikilvæg fyrir suma, þ.e.a.s. fyrir forsprakka og hugmyndafræðilega leiðtoga hópsins. Aðrir félagar hafa oft lítinn eða engan áhuga á heimssýn hópsins eða þekkingu á henni (Schmid 2013).

    Hugmyndafræðin er aðeins mikilvæg fyrir suma, þ.e.a.s. fyrir forsprakka og hugmyndafræðilega leiðtoga hópsins.

    Innræting öfgaskoðana vegna hugmyndafræði – að samþykkja róttæka, pólitíska og trúarlega hugmyndafræði – getur átt sér stað vegna þátttöku einstaklings í öfgafullu umhverfi eða hópum, frekar en að hann leiti uppi öfgahópa vegna eigin sannfæringar.

    Þetta kemur fram í rannsóknum Tore Bjørgo á ýmsum rasískum og öfgahægrihópum í Noregi. Samkvæmt niðurstöðum hans átti hugmyndafræðileg innræting á öfgaskoðunum sér oft stað eftir að einstaklingar höfðu beitt ofbeldi sem byggðist á útlendingahatri (Bjørgo og Gjelsvik 2015).

    Petter Nesser hefur kortlagt innrætingu öfgaskoðana meðal múslima í Evrópu (Nesser 2015). Hann heldur því fram að ekki sé allt öfgafólk knúið af hugmyndafræði. Marc Sageman (2004; 2008) rannsakar hryðjuverkastarfsemi og hefur bent á að innræting öfgaskoðana snúist gjarnan ekki um hugmyndafræði heldur um að tilheyra hópi og eiga í félagslegum tengslum.

    Hugmyndafræðin getur haft mikið vægi þegar viðhorf og aðgerðir þarf að rökstyðja og réttlæta.

    Hugmyndafræðin getur haft mikið vægi þegar viðhorf og aðgerðir þarf að rökstyðja og réttlæta. Árið 2009 framkvæmdu Gartenstein-Ross og Grossman rannsókn á 117 breskum og bandarískum einstaklingum sem innrættar höfðu verið öfgaskoðanir. Fjörutíu prósent þeirra héldu því fram að trúarbrögð hefðu verið drifkrafturinn á bakvið ólöglegar aðgerðir sínar. Þessar niðurstöður eru í samræmi við rannsókn á fjörutíu norskum múslimum árið 2015, en hún sýndi að hugmyndafræði getur verið aðferð við að réttlæta fjandsamlegar hugsanir og aðgerðir (Ahmed 2015: 84-87).

    Netið

    Netið teygir anga sína til allra heimshorna og opnar þannig fyrir endalausar leiðir til miðlunar á róttækum hugsunum og hugmyndum. Það getur stuðlað að eflingu samstarfsneta vegna þess að algengt er að fólk tjái óánægju sína á umræðusvæðum á netinu (Sageman 2007).

    Það er hægt að stofna til tengsla og viðhalda þeim á netinu.

    Netið er hagkvæmt í notkun, það býður upp á nafnleynd og verður þannig vettvangur þar sem bæði karlar og konur geta skipst á skoðunum og miðlað upplýsingum (Precht 2007: 57). Fólk stofnar til tengsla og viðheldur þeim á netinu og því getur þessi vettvangur orðið til að styrkja innrætingu öfgaskoðana sem þegar hefur átt sér stað (Christmann 2012: 30).

    Samt hafa fáar rannsóknir sýnt fram á að netið sé lykilþáttur í innrætingu öfgaskoðana (Christmann 2012: 30). Þótt netið bjóði upp á leiðir sem stuðlað geta að innrætingu öfgaskoðana en fátt sem bendir til þess að það gegni ávallt lykilhlutverki.

    Sumir líta á netið sem eina trúverðuga miðilinn þar sem allan sannleikann er að finna.

    Breyttar áhorfs- og neysluvenjur hjá ungu fólki gera hins vegar að verkum að ekki er hægt að leiða hjá sér vægi internetsins. Ein mikilvæg ástæða fyrir þessu er að margir líta á netið sem frjálsan og óritskoðaðan miðil. Netið getur höfðað til fólks á annan hátt en hefðbundnir fjölmiðlar. Öfgahópar sem nota netið meðvitað til að miðla upplýsingum og laða til sína nýja félaga geta þannig haft áhrif á ungt fólk. Öfgahópar eiga erfitt með að koma sér á framfæri í hefðbundnum fjölmiðlum. Af þeim sökum getur boðskapur þeirra virkað bæði meira heillandi og trúverðugri – þegar gengið er út frá því að hefðbundnir fjölmiðlar beiti þá þöggun. Sumir líta því á netið sem eina trúverðuga miðilinn þar sem allan sannleikann er að finna.

    Ólíkar gerðir öfgafólks

    Þeir sem ganga til liðs við öfgahópa eru af mjög mismunandi sauðahúsi og drifkrafturinn á bakvið gjörðir þeirra er af ýmsu tagi. Þó er hægt að tala um helstu flokka þeirra einstaklinga sem taka þátt í starfsemi öfgahópa. Petter Nesser hefur rannsakað evrópska jihadista (hryðjuverkahópa sem kenna sig við jihad, heilagt stríð) og hann flokkar meðlimi þessara hópa í fjóra flokka: Forsprakka/leiðtoga, fylgjendur, utangarðsfólk og tilfallandi málaliða (e. drifters) (Nesser 2011). Hann viðurkennir sjálfur að fastmótuð flokkun af þessu tagi sé vandkvæðum bundin, ekki síst vegna þess að sumir meðlimir pössuðu ekki í neinn þessara fjóra flokka.

    Þeir sem ganga til liðs við öfgahópa eru af mjög mismunandi sauðahúsi og drifkrafturinn á bakvið gjörðir þeirra er af ýmsu tagi.

    Tore Bjørgo (2011) hefur sett fram líkan þar sem fjögur stig eru notuð til að lýsa meðlimum í öfgasamtökum: Meðlimir þar sem hugmyndafræði er drifkraftur, leiðtogar eða fylgjendur, meðlimir sem eru úrræðagóðir en jaðarsettir og loks meðlimir sem sækja í upplifun og spennu.

    Tilgangurinn með líkaninu er ekki að koma upp um mögulega hryðjuverkamenn; til þess eru flokkarnir of opnir. Tilgangur þess er frekar að benda á þörfina á öðrum aðferðum þegar unnið er gegn innrætingu öfgaskoðana. Hægt er að rökræða helstu áhyggjuefnin við þá sem eru knúnir áfram af hugmyndafræði. Fylgjendurnir þurfa á annars konar félagsskap að halda og þeir sem sækja í spennu þurfa leiðir til að kynnast annars konar spennu. Fyrir jaðarsettu meðlimina þarf að bjóða upp á félagslegar aðgerðir og meiri tengingu við atvinnulífið og samfélagið í heild sinni (Bjørgo & Gjelsvik 2015).

    Það eru margar leiðir að öfgahyggjunni og að sama skapi er leiðin frá henni ólík og einstaklingsbundin.

    Þessi yfirferð sýnir að innræting öfgaskoðana er flókið og margþætt ferli. Það eru margar leiðir að öfgahyggjunni og að sama skapi er leiðin frá henni ólík og einstaklingsbundin. Það er líka mikilvægt að greina á milli forvarna gegn innrætingu öfgaskoðana og þess að snúa innrætingunni við. Hið fyrrnefnda er í verkahring skólans.

     

  • Unnið gegn innrætingu öfgaskoðana í skólanum

    Flýtivalmynd

    Í þessu samhengi tengist hlutverk skólans inn í almennt forvarnarstarf gagnvart öllum nemendum sínum. Það snýst ekki síst um að skapa í skólanum lýðræðismenningu sem útilokar engan og allir geta tekið þátt í; menningu þar sem rými gefst fyrir gagnrýni og sterkar tilfinningar og skoðanir en útilokun, hatursorðræða og tortryggni eru ekki uppi á borðinu.

    Forvarnir og uppræting öfgaskoðana

    Innræting öfgaskoðana og aðild að öfgasamtökum felur í sér flókið og margþætt ferli. Þess vegna er uppræting öfgaskoðana – þ.e.a.s. endurhæfing einstaklinga sem aðhyllast öfgaskoðanir – verkefni fyrir sérfræðinga með sérþekkingu á trúarbrögðum, sértrúarstefnum, pólitískri hugmyndafræði og sjálfsmyndarsköpun.

    Þegar endurhæfingunni lýkur er mikilvægt að geta snúið aftur í opið umhverfi sem styður viðkvæma einstaklinga og er opið fyrir þátttöku þeirra.

    Framlag kennarans hvað varðar almennt starfsumhverfi í skólanum er einnig mikilvægt þegar sérfræðingar koma auga á þörf fyrir markvissari aðgerðir fyrir tiltekna einstaklinga. Þegar endurhæfingunni lýkur er mikilvægt að geta snúið aftur í opið umhverfi sem styður viðkvæma einstaklinga og er opið fyrir þátttöku þeirra.

    Mörg rök eru fyrir því að skilja á milli forvarna og upprætingar öfgaskoðana. Helsta áhættan felst í því að viðkvæmir einstaklingar verði fyrir útskúfun, t.d. ef þeir eru taldir hafa öfgafullar skoðanir út frá þjóðerni sínu, trúarbrögðum eða framkomu (Veldhuis og Staun 2009: 18). Sýnilegar ytri breytingar, t.d. að ganga í fatnaði sem hefur trúarlega merkingu, er hægt að misskilja sem vísbendingu um öfgaskoðanir. Viðkomandi einstaklingur getur skynjað þetta sem tortryggni, sem stuðlar að enn meiri mismunun. Útskúfun af þessu tagi getur einnig haft bein áhrif í innrætingarferli öfgaskoðana og þar með haft þveröfug áhrif.

    Sjálfsmyndarsköpun

    Framlag kennarans til forvarna ætti að felast í því að styrkja lífssýn nemenda á lýðræðislegum forsendum. Samskiptin í skólastofunni ættu því að þjálfa nemendur í leikreglum lýðræðisins og fræða þá um möguleika þess.

    Rannsóknir sýna að ungir norskir múslimar eiga betra með að standast róttækar skoðanir og hugmyndir ef þeir hafa tileinkað sér hugsunarhátt sem byggist annaðhvort á lýðræðishugmyndinni eða hefðbundnum túlkunum á trúarbrögðum (Ahmed 2015). Í skólanum ættu forvarnir gegn innrætingu öfgaskoðana því að snúast um að skapa sameiginlega og lýðræðislega sjálfsmynd sem felur í sér rými til að vera öðruvísi.

    Félagsmótun

    Með opnum samskiptum þar sem enginn er útilokaður getur kennarinn skapað umhverfi þar sem hægt er að ræða erfið málefni sem varða trúarbrögð, lífssýn og stjórnmál. Mikilvægt er að kennarar skapi aðstæður fyrir opið samtal sem hamlar því ekki að nemendur tjái og ígrundi viðhorf eigin viðhorf. Með slíku samtali geta bæði kennarar og nemendur kynnst ólíkum hugsunum, hugmyndum og viðhorfum. Mikilvægt er að skólinn taki til umfjöllunar umdeild viðfangsefni, s.s. flóttamannavandann eða átök Ísraels og Palestínu, með hætti þar sem pláss er fyrir ólík viðhorf og ágreining.

    Hægt er að komast hjá útilokun með því bjóða upp á opið andrúmsloft í skólastofunni þar sem öllum býðst að taka þátt.

    Kennarinn stendur frammi fyrir tveimur áskorunum. Annars vegar þarf hann að tryggja að nemendur tali af virðingu við hvert annað og um hvert annað. Þetta er hægt að gera með því að setja reglur um það hvernig talað er í skólastofunni. Hins vegar þurfa ólíkar skoðanir og framandi hugsunarháttur af öllu tagi að geta komið fram án hindrana. Þegar andrúmsloftið í skólastofunni er opið og öllum býðst að taka þátt er komið í veg fyrir í útilokun og tortryggni og engum þarf að finnast hann eða hún standa hallari fæti.

    Í skólastofunni þarf að ríkja andrúmsloft þar sem allir nemendur finna að þeir geta tjáð eigin viðhorf.

    Nemendur verða að geta rætt opinskátt við kennara um hugsanir sínar og tilfinningar. Í skólastofunni þarf að ríkja andrúmsloft þar sem allir nemendur finna að þeir geta tjáð eigin viðhorf. (Davies 2014: 454).

    Arun Kundnani heldur því fram að lýðræðisferlið, þar sem skoðanir og viðhorf sem meirihlutanum finnst móðgandi eða óþægileg fá að heyrast, sé raunhæft mótafl gegn hryðjuverkastarfsemi og hugmyndafræði hennar (Kundnani 2009). Til að þetta virki sem skyldi er mikilvægt að nemendur læri að gera greinarmun á gagnrýni og persónulegum árásum (þ.m.t. andúð á tilteknum hópum) og þrói með sér seiglu (mótstöðuafl) til að taka móðgunum ekki persónulega (Davies 2014: 455).

    Að sama skapi er mikilvægt að notast við regluramma sem byggir á mannréttindum, landslögum og alþjóðalögum þegar kemur að tjáningu, samskiptum, þekkingarmiðlun og umræðum, bæði í skólastofunni og annars staðar innan skólans.

    Hlutdeild og þátttaka í samfélaginu

    Það er mikilvægt að styrkja þá trú nemenda að hægt sé að nota löglegar, lýðræðislegar aðferðir til að breyta samfélaginu. Þannig er einnig undirstrikað að ólöglegar aðferðir á borð við ofbeldi eða hatursfullar yfirlýsingar viðgangist ekki.

    Hægt er að líta á það jákvæðum augum þegar ungmennum finnst heimurinn óréttlátur og þau vilja breyta honum.

    Hægt er að líta á það jákvæðum augum þegar ungmennum finnst heimurinn óréttlátur og þau vilja breyta honum. Því ættu kennarar að leggja áherslu á að nemendur þekki ólíkar leiðir og farvegi þar sem hægt er að hafa áhrif og koma á breytingum.

    Árið 2015 hvatti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna öll aðildarríki sín til að auka þátttöku ungmenna í ákvarðanatöku og friðarferlum, bæði heima fyrir, á landsvísu og á heimsvísu, í þeim tilgangi að fyrirbyggja innrætingu öfgaskoðana (United Nations 2015). Í þessum anda ætti skólastofan því að vera vettvangur þar sem ungt fólk er hvatt til þess og þjálfað í hlutdeild og þátttöku í samfélaginu, auk þess sem jákvætt viðhorf gagnvart lýðræðisferlinu og færni í því ætti að vera stór þáttur í þeirri heimssýn sem nemendur fræðast um í skólanum.

    Skólastofan ætti að vera vettvangur þar sem ungt fólk er hvatt til þess og þjálfað í hlutdeild og þátttöku í samfélaginu.

    Til að þetta sé mögulegt verða nemendur að kunna að tjá sig, láta rödd sína heyrast, rökræða og hafa áhrif á ákvarðanir. Kennarar verða að ýta með virkum hætti undir þessi atriði með nemendum og gæta þess að hafa ekki hamlandi áhrif á ferlið (Davis 2009: 199).

    Virk þátttaka í skólastofunni og skólanum á að vera stökkpallur inn í hlutdeild og þátttöku í samfélaginu. Þegar unnið er gegn innrætingu öfgaskoðana er einkar mikilvægt að fræða nemendur um það hvernig pólitískar ákvarðanir eru teknar. Mikilvægt er að sýna ungu fólki fram á að innan lýðræðisins sé að finna ótal leiðir til að hafa áhrif á ákvarðanatöku.

    Gagnrýnin hugsun

    Kennsla og þjálfun í gagnrýninni hugsun er mikilvæg til að áhugi og hugsjónir unga fólksins þróist ekki út í hugmyndir og hegðun sem er skaðleg samfélaginu.

    Hér þarf að kynna fyrir nemendunum aðferðir sem gera þeim kleift að spyrja einfaldra spurninga, t.d. hvernig og hvar sé best að afla sér upplýsinga og á hvers vegum upplýsingarnar eru. Þetta eykur hjá nemendum meðvitaða gagnrýni og hvetur þau til að hafa varann á gagnvart öfgaskoðunum og róttækum hugmyndum. Þetta á einnig við um notkun og áhorf á myndir og myndbönd.

    Í gegnum menntun sem ýtir undir gagnrýna hugsun verður manni ljóst að til er fleiri en einn veruleiki, sannleikur, sjónarhorn og skilningur.

    Í gegnum menntun sem ýtir undir gagnrýna hugsun verður manni ljóst að til er fleiri en einn veruleiki, sannleikur, sjónarhorn og skilningur (Davies 2009: 192). Slíkur skilningur ætti að auka umburðarlyndi nemenda fyrir skoðunum annarra, án þess að þau samþykki öfgaskoðanir. Rétta leiðin til að vinna gegn innrætingu öfgaskoðana hjá ungu fólki felst í gagnrýninni hugsun sem byggir á lýðræðisgildum.

     

  • Bókmenntir

    Ahmed, Uzair (2015). Sectarian Identities and Relations – A Case Study of 40 Norwegian Muslims. M.A. thesis. Aas: Norwegian University of Life and Sciences.

    Alonso, R., T. Bjørgo, D.D. Porta, R. Coolsaet, F. Khosrokhavar, R. Lohlker, M. Ranstorp, F. Reinares, A. P. Schmid, A. Silke, M. Taarnby and G. De Vries. (2008). Radicalisation Processes Leading to Acts of Terrorism: a concise Report prepared by the European Commission’s Expert Group on Violent Radicalisation, European Commission, Ghent University.

    Bjørgo, Tore, Gjelsvik, Ingvild Magnæs (2015). Forskning på forebygging av radikalisering og voldelig ekstremisme. En kunnskapsstatus. PHS Forskning. Oslo: Politihøgskolen.

    Bjørgo, Tore. (2011). Dreams and disillusionment: engagement in and disengagement from militant extremist groups. I: Crime, law and social change, 55 (4): 277-285.

    Borum, Randy (2011). Radicalization into Violent Extremism. I: A Review of Social Science Theories. Journal of Strategic Security, 4 (4): 7-36.

    Christmann, Kris (2012). Preventing Religious Radicalisation and Violent Extremism: A Systematic Review of the Research Evidence. Ministry of Justice, hentet 03.12.2015. http://bit.ly/1lzL1f1.

    Coolsaet, Rik (2016). ‘All Radicalization is Local – The genesis and drawbacks of an elusive concept’. Egmont Papers 84: 3-48. Egmont Institute, hentet 28.12.2015. http://egmontinstitute.be/wp-content/uploads/2016/05/ep84.pdf.

    Dalgaard-Nielsen, Anja (2010). Violent Radicalization in Europe: What We Know and What We Do Not Know. I: Studies in Conflict and Terrorism, 33 (9): 797: 814.

    Davies, Lynn (2009). Educating against Extremism: Towards a Critical Politicisation of Young People. I: International Review of Education, 55 (2): 183 – 203.

    Davies, Lynn (2014). Interrupting Extremism by Creating Educative Turbulence. I: Curriculum Inquiry, 44 (4): 450-468.

    Davies, Lynn (2016). Security, Extremism and Education: Safeguarding or Surveillance? I: British Journal of Education Studies, 64 (1): 1-19.

    Gartenstein-Ross, Daveed, Grossman, Laura (2009). Homegrown Terrorist in the U.S. and U.K.: An Empirical Examination of the Radicalization Process. Washington, D.C: FDD Press. Foundation for Defense of Democracies, hentet 04.12.2015. http://bit.ly/1Q4HGli.

    Goodwin, Matthew, Ramalingam, Vidhya, Briggs, Rachel (2012). The New Radical Right: Violent and Non-Violent Movements in Europe. Briefing paper. London: Institute for Strategic Dialogue.

    Gule, Lars (2012). Ekstremismens kjennetegn – Ansvar og motsvar. Oslo: Spartacus.

    Horgan, John (2008). Deradicalization or Disengagement? I: Perspective on Terrorism, 2 (4). Terrorismanalysts, hentet 14.02.2017 http://www.terrorismanalysts.com/pt/index.php/pot/index.

    Johansen, Eivind Lindkvist, Matre, Jostein (2015). Paris terroristene: Fra festløver til jihad. Verdens Gang, hentet 19.12.2016. http://www.vg.no/nyheter/utenriks/terrorangrepene-i-paris/paris-terroristene-fra-festloever-til-jihad/a/23566472/.

    Kundani, Arun (2009). Spooked: How not to prevent violent extremism. Institute of Race Relations, hentet 14.02.2017. http://www.irr.org.uk/news/spooked-how-not-to-prevent-violent-extremism/.

    Mandel, D. R. (2009). ‘Radicalization: What Does It Mean?’. I: Pick, T. M., Speckhard, A. and Jacuch, B., (eds). Home-Grown Terrorism. Amsterdam: IOS Press.

    Nesser, Petter (2011). Jihad in Europe, Patterns in Islamist Terrorist Cell Formation and Behavior, 1995-2010. Dr. Philos thesis. Oslo: University of Oslo.

    Nesser, Petter (2015). Islamist Terrorism in Europe, A History. London: Hurst.

    Neumann, Peter R. (2013). The trouble with radicalization. I: International Affairs, 89 (4): 873-893.

    Precht, Tomas (2007) Home grown terrorism and Islamist radicalisation in Europe: From conversation to terrorism: An assessment of the factors influencing violent Islamist extremism and suggestions for counter radicalization measures. Dansk justisdepartementets nettside, hentet 14.02.2017.

    PST (2016): Temarapport: Hvilken bakgrunn har personer som frekventerer ekstreme islamistiske miljøer i Norge før de blir radikalisert?, PST, hentet 14.02.2017. http://www.pst.no/media/82236/2016_09_08_radikaliseringsprosjektets-rapport_ugradert.pdf.

    Sageman, M. (2004). Understanding Terror Networks. Philadelphia: University of Pennsylvania Press.

    Sageman, Marc (2007). Radicalization of global Islamist terrorists. United States Senate Committee on Homeland Security and Governmental Affairs, hentet 14.02.2017. https://www.hsgac.senate.gov/download/062707sageman.

    Sageman, Marc (2008). Leaderless Jihad: Terror Networks in the Twenty-First Century. Philadelphia: University of Pennsylvania Press.

    Schmid, Alex P. (2013). Radicalisation, De-Radicalisation, Counter-Radicalisation: A Conceptual Discussion and Literature Review. International Centre for Counter-Terrorism – The Hague (ICCT), hentet 14.02.2017. https://www.icct.nl/download/file/ICCT-Schmid-Radicalisation-De-Radicalisation-Counter-Radicalisation-March-2013.pdf.

    Silber, Mitchell D., Bhatt, Arvin (2007). Radicalization in the West: The Homegrown Threat. NYPD, hentet 14.02.2017. http://sethgodin.typepad.com/seths_blog/files/NYPD_Report-Radicalization_in_the_West.pdf.

    United Nations. (2015). Security Council, Unanimously Adopting Resolution 2250, Urges Member States to Increase Representation of Youth in Decision-Making at All Levels. United Nations, hentet 28.11.2016. http://www.un.org/press/en/2015/sc12149.doc.htm.

    Veldhuis, Tinka, Staun, Jørgen (2009). Islamist Radicalisation: A Root Cause Model. Danish Centre for International Studies and Human Rights, hentet 14.02.2017. https://www.diis.dk/files/media/publications/import/islamist_radicalisation.veldhuis_and_staun.pdf.

    Wiktorowicz, Q. (2005). Radical Islam Rising: Muslim Extremism in the West. Lanham: Rowman & Littlefield Published.

    Wiktorowicz, Quintan. (sine anno). Joining the Cause: Al-Mahajiroun and Radical Islam. Institute for National Security and Counterterrorism, hentet 14.02.2017. http://insct.syr.edu/wp-content/uploads/2013/03/Wiktorowicz.Joining-the-Cause.pdf.

Undervisningsopplegg

  • Rök, ómálefnalegt eða persónuleg árás?

    TID: 30 mín. Les mer
  • Hvernig vinna stjórnmál og samfélag saman

    TID: 60 til 90 mín. Les mer