Í dag er lýsingin „innræting öfgaskoðana“ einkum notað til að útskýra ýmsa þætti sem eiga sér stað „áður en sprengjan springur“: Ferlið sem leiðir til þess að einstaklingar og hópar fremja hryðjuverk. Almennt er fólk sammála því að berjast þurfi gegn innrætingu öfgaskoðana. Það ríkir hins vegar enginn einhugur um það hvað innræting öfgaskoðana felur nákvæmlega í sér og hvaða hlutverki hún gegnir sem orsakaþáttur í hryðjuverkum. Mest skilur á milli þeirra sem tengja innrætingu öfgaskoðana við fúsleika til að beita ofbeldi og þeirra sem skilja hugtakið á almennari hátt, s.s. sem tilhneigingu til að trúa á öfgafullri hreyfingar og hugmyndafræði.
Ofstæki, innræting öfgaskoðana og þátttaka
Ekki liggur fyrir skýrt samhengi á milli þess að hafa öfgafullar skoðanir gagnvart umheiminum – veruleikanum – og að búa yfir vilja og getu til að beita aðra ofbeldi. Samtök sem beita hryðjuverkum til að ná fram markmiðum sínum nota oftast hugmyndafræði sína til að réttlæta ofbeldið. Samt sem áður grípa samtök gjarnan til ofbeldisaðgerða í kjölfar atburðarásar þar sem þeim hefur mistekist að afla málflutningi sínum stuðnings eftir öðrum leiðum.
Sumir hryðjuverkamenn aðhyllast ekki öfgaskoðanir. Öðrum manneskjum hafa verið innrættar öfgaskoðanir en þær lifa engu að síður í sátt og samlyndi í lýðræðislegum samfélögum.
Einnig eru mörg dæmi þess að einstaklingar sem ekki aðhyllast öfgaskoðanir fremji hryðjuverk. Á sama hátt hafa margar manneskjur öfga- eða ofstækisfullar skoðanir en beita samt engu ofbeldi heldur lifa í sátt og samlyndi í lýðræðislegum samfélögum.
Því er gagnlegt og mikilvægt að greina á milli innrætingar öfgaskoðana og þátttöku. Innræting öfgaskoðana er ferli sem leiðir til þess að einstaklingar breyta smám saman afstöðu sinni og sýn á samfélag sitt og leita uppi ofstækisfull viðhorf, hugmyndir og skoðanir. Þetta ferli getur leitt til þess að viðkomandi styður ofbeldi annarra, réttlætir það eða kemur því til varnar (ofstæki án ofbeldis) en einnig til þess að viðkomandi tekur þátt og fremur sjálf(ur) ofbeldisverk til að breyta samfélagi sínu (ofstæki með ofbeldi).
Innræting öfgaskoðana er ferli sem leiðir til þess að einstaklingar breyta smám saman afstöðu sinni og sýn á samfélag sitt og leita uppi ofstækisfull viðhorf, hugmyndir og skoðanir.
Hægt er að skilgreina ofstæki, hvort sem því fylgir ofbeldi eða ekki, sem öfgafullar hugsanir, skoðanir, hugmyndir og hegðun sem tengjast gjarnan alræðishugmyndafræði. Orðin „róttækni“ og „ofstæki“ eru gjarnan notuð jöfnum höndum. Munurinn er þó sá að hugtakið róttækni getur einnig haft jákvæða og virðingarverða merkingu. Í vinstripólitík hefur þetta orð yfirleitt jákvæðan blæ því það er notað um stjórnmálafólk og -stefnur sem tekur þörfina á breyttum valdamynstrum í samfélaginu alvarlega. Í samhengi við trúarbrögð líta margir á orðið sem jákvæða löngun til að snúa aftur til hins upprunalega boðskapar sem trúarbrögðin boðuðu.
Orðið „róttækur“
Í sögulegu samhengi hefur orðið „róttækur“ haft mismunandi merkingu, allt frá því að lýsa rót einhvers (því náttúrulega, grunnforsendunum) til þess að lýsa því sem aðgreinir sig frá því eðlilega (staðlinum, því venjulega, því hefðbundna, viðmiðum samfélagsins) (Mandel 2009).
Enska orðið „radical“ er dregið af latneska orðinu „radix“, sem þýðir rót.
Enska orðið „radical“ er dregið af latneska orðinu „radix“, sem þýðir rót. Orðið vísar því til einhvers grundvallarþáttar eða kjarna. Orðið „radical“ er t.d. útskýrt á þennan hátt í Oxford Advanced Learner’s Dictionary: „Það sem tengist grundvallareiginleikum einhvers eða hefur áhrif á þá“.
Á 19. öld víkkaði merking orðsins út og náði einnig utan um það sem gæti breytt rótum einhvers (Mandel 2009: 104). Orðið þróaðist enn frekar í lok 19. aldar og upphafi 20. aldar og þá fór „róttækur“ að vísa til umfangsmikilla breytinga á stjórnmálasviðinu – umbóta sem náðu niður að rótum.
Íslensk orðabók skýrir orðið róttækur sem: „Sá sem vill breyta einhverju frá rótum; róttækur flokkur; róttækur í skoðunum“.
Á sama tíma var „róttækur“ notað um þá einstaklinga innan stjórnmálaflokks sem tala máli öfgafullra skoðana eða styðja þær. Enska orðið „extremism“ er dregið af latneska orðinu „extremus“ sem þýðir „það ysta“, „það fjarlægasta“ og/eða „það versta“ (Gule 2012: 15).
Í jaðaríþróttum getur orðið „róttækur“ lýst einhverju jákvæðu sem felur samt í sér áhættu eða jaðarhegðun.
Orðið „radical“ hefur fengið ýmsar merkingar í slangri á öðrum tungumálum, einkum á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar (Mandel 2009: 105). Sú notkun er rakin til brimbrettafólks og er vel þekkt í dag í ýmsum jaðaríþróttum. Orðið róttækur getur þá lýst einhverju jákvæðu sem felur samt í sér áhættu eða jaðarhegðun.
Þessar ólíku skilgreiningar geta átt sinn þátt í því að róttækt fólk lítur hugtakið jákvæðum augum og þar með sínar eigin hugsanir og gjörðir. Ungu kristnu fólki getur t.d. þótt jákvætt að vera róttækur, í þeirri merkingu að róttæknin sé leit að því „eðlilega“ eða „kjarnanum“ í trúarbrögðunum.
Róttækni sem afstætt fyrirbæri
Túlkun okkar á hugtökunum „róttækni“ og „öfgaskoðanir“ ræðst af því hvað við lítum á sem venjulegt, hófsamt eða mitt á milli. Þetta hefur í för með sér að skilningur okkar á þessum fyrirbærum verður að einhverju leyti alltaf huglægur, afstæður og háður samhengi (Coolsaet 2016; Mandel 2009).
Túlkun okkar á orðinu „öfgaskoðanir“ ræðst af því hvað við álítum vera eðlilegt. Í dag þætti t.d. öfgafullt að neita konum um kosningarétt eða fara í fóstureyðingu, en á 19. öldinni hefði þótt öfgafullt að samþykkja þessi atriði. Tjáningarfrelsið er annað slíkt dæmi. Í lýðræðisríkinu Noregi telst tjáningarfrelsið vera mikilvægur þáttur en í löndum á borð við Sádí-Arabíu og Norður-Kóreu getur iðkun tjáningarfrelsis talist til öfgahegðunar. Peter Neumann varpar ljósi á þetta með því að umorða þekkt orðatiltæki: „Hryðjuverkamaður eins er frelsishetja annars“ (2013: 878).
Það er mikilvægt að skilja að róttækni er ekki hættuleg í sjálfu sér. Þetta á ekki síst við um leitandi ungmenni sem þreifa sig stundum áfram með því að tjá viðhorf sem geta talist til jaðarskoðana.
Það er mikilvægt að skilja að róttækni er ekki hættuleg í sjálfu sér.
Hvar liggja þá mörkin á milli jákvæðrar og neikvæðrar róttækni? Neikvæð róttækni felur það oft í sér að tileinka sér alræðishugmyndafræði sem getur skaðað samfélagið og reynst því hættuleg. Jákvæð róttækni getur falið í sér mikilvæga baráttu gegn óréttlátum viðmiðum eða stöðlum, t.d. í jafnréttisbaráttu.
Hættan á rangri flokkun
Það er einnig mikilvægt að kennarar skilji hvaða alvarlegu afleiðingar sértækur og afstæður skilningur á hugtakinu getur haft fyrir saklaust fólk sem er flokkað ranglega sem einstaklingar með róttækar öfgaskoðanir. Einstrengingsleg og illa ígrunduð tortryggni sem byggir á trúarskoðunum og þjóðerni getur stuðlað að enn meiri róttækni (Veldhuis og Staun 2009: 19). Þess vegna er brýnt að við séum vandvirk og nákvæm – eins og hægt er – þegar við freistum þess að skilja og útskýra róttækni. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess að hugtökin innræting öfgaskoðana, róttækni, ofstæki og hryðjuverkastarfsemi eru oft notuð hvert um annað.
Einstrengingsleg og illa ígrunduð tortryggni sem byggir á trúarskoðunum og þjóðerni getur stuðlað að enn meiri róttækni.
Fyrirliggjandi skilgreiningar á hugtakinu hafa fært fagfólki, fjölmiðlum og almenningi umgjörð sem styðjast má við til að skilja innrætingu öfgaskoðana og koma í veg fyrir hana. Á sama tíma hafa sumar þessara skilgreininga orðið til þess að sjónum er ekki beint að vissum gerendum, hugmyndum og aðgerðum. Því er kennurum mikilvægt að muna að bæði fólk og hópar sem innrætt hefur verið róttækni geta verið afar fjölbreyttir. Hugtakið er m.a. notað sem tilvísun í róttæka múslima, róttækt vinstrifólk og fólk sem tekur upp hugmyndafræði öfgahægrisins. Dæmi um það síðastnefnda er Anders Behring Breivik sem gekk í gegnum innrætingarferli öfgaskoðana þar sem hugmyndafræði öfgahægrisins lék stórt hlutverk.