Samsömun og það að tilheyra

Hver einasta manneskja býr yfir hugmynd um það hver hún er; svokallaða sjálfsmynd. Sjálfsmynd snýst að miklu leyti um það hverju og hverjum við tilheyrum og hvaða gildi við höfum í lífinu. Það er í mannlegu eðli að finnast sá hópur sem við tilheyrum einsleitari en hann er í raun og veru. Því er sjálfsígrundun afar mikilvægur liður í öllu forvarnarstarfi.

  • Sjálfsmynd, fjölmenning og fjölmenningarfærni

    Flýtivalmynd

    Hugtakið „sjálfsmynd“ er veigamikið og gildishlaðið; fólk hefur ólíkar og stundum andstæðar skoðanir á því hvað sjálfsmynd felur í sér. Einn algengur skilningur er sá að sjálfsmynd sé „að vera maður sjálfur yfir lengri tíma“. Í þeim skilningi er sjálfsmynd eitthvað stöðugt og kunnuglegt og hugtakið er bæði hægt að nota yfir einstaklinga og hópa.

    Er sjálfsmyndin fasti eða er hún breytileg?

    Hugmyndir um sjálfsmynd sem eitthvað stöðugt yfir lengri tíma er hægt að túlka á ólíkan hátt. Slíkar hugmyndir gera ráð fyrir föstum eða óbreytanlegum kjarna sem er óháður ytri áhrifum. Hugmyndir sem gera ráð fyrir því að sjálfsmyndin sé breytileg ganga út frá því að einstaklingurinn þroskist og þróist og verði fyrir ytri áhrifum.

    Í hugmyndinni um hópsjálfsmynd er gert ráð fyrir því að margir einstaklingar deili vissum eiginleikum sem tengja þá saman.

    Á milli þessara tveggja hugmynda er að finna ólík stig og snertifleti. En þegar sjálfsmyndarhugtakið er notað yfir hópa hefur munurinn á milli þessara ólíku hugmynda töluverðar afleiðingar í för með sér. Í hugmyndinni um hópsjálfsmynd er gert ráð fyrir því að margir einstaklingar deili sömu eiginleikunum sem tengja þá saman og skapa með þeim einingu og þá tilfinningu að þeir tilheyri sama hópnum. Þetta vekur þá spurningu hvort hópsjálfsmyndin byggi á meðfæddum eiginleikum (t.d. þjóðerni), eiginleikum sem teljast stöðugir yfir lengri tíma (t.d. sameiginlegar hefðir) eða jafnvel opnari flokkum á borð við sameiginleg áhugamál og starfsgreinar (t.d. faghópar í tilteknum atvinnugreinum).

    Það má því segja að skilningur okkar á sjálfsmynd geti bæði tengst hugmyndum okkar um sjálfsmynd sem fasta eða breytilega einingu. Þetta er afar mikilvægt þegar skoðaðar eru hugmyndir okkar um einingu og um það að tilheyra hópi. Ef skilyrðin fyrir því að tilheyra „okkar“ hópi byggjast á lífræðilegum eiginleikum eða áunnum og rótgrónum hefðum verður mjög erfitt fyrir nýja einstaklinga að verða hluti af hópnum.

    Cora Alexa Døving heldur því fram að „óþétt sjálfsmynd“ byggi á þáttum sem fólk með ólíkan bagrunn getur deilt eða sammælst um, en í „þéttri sjálfsmynd“ sameinist einstaklingarnir um þætti sem eru þeim meðfæddir eða þeir hafa „erft“ frá samfélaginu. Samkvæmt Døving er óþétt sjálfsmynd mun opnari á meðan meiri útilokun á sér stað með þétt sjálfsmynd.

  • Fjölmenningarfærni

    Þegar rætt er um fyrirbærið sjálfsmynd verður hugmyndin um sameiginlega eiginleika gjarnan miðlæg. Allt sem er öðruvísi verður því sjálfkrafa að fráviki, einhverju sem passar ekki inn í eða einhverju sem truflar. Í samhengi við viðhorf og sjálfsmyndir hópa verður trúin á „það sem er líkt með okkur“ og „það sem er ólíkt með okkur og þeim“ gjarnan að grundvallaráherslu. Kennsla í fjölmenningarfærni setur spurningamerki við þessar forsendur.

    Ef við ætlum okkur að viðurkenna fjölbreytileika sem slíkan verðum við einnig að viðurkenna hvað er öðruvísi. En hvað felst í raun og veru í því „að vera öðruvísi“ og hver er „öðruvísi“?

    Okkur hættir gjarnan til að steypa saman hugtökunum „fjölbreytileiki“ og „fjölmenning“ – þeir sem eru öðruvísi eru ókunnugir og eiga sér annan þjóðernis- og menningaruppruna. En þessi afstaða felur sjálfkrafa í sér hættu: Þeir sem við skilgreinum sem öðruvísi verða enn meira framandi en þeir eru – og meira en þeir upplifa sjálfir – vegna þess að sjónum er helst beint á það sem gerir þá öðruvísi.

    Þeir sem við skilgreinum sem öðruvísi verða enn meira framandi en þeir eru – og meira en þeir upplifa sjálfir.

    Og hvað gildir þá um „okkar“ hóp? Ef við lítum á fjölbreytileika sem mismun á milli hópa getur það annaðhvort valdið því að mismunur innan hópsins sé viðurkenndur eða ekki. Hugmyndir um einsleitar, stöðugar og fastmótaðar hópsjálfsmyndir geta hamlað því að andi gjafmildi, örlæti og gagnsæi fái þrifist – vegna þess að litið er á ólíkar skoðanir, lífsstíl og hegðun sem frávik og jafnvel „svik“.

    Hugmyndir um einsleitar, stöðugar og fastmótaðar hópsjálfsmyndir geta hamlað því að andi gjafmildi, örlæti og gagnsæi fái þrifist.

    Með öðrum orðum: Hugmyndin um fastmótaðar hópsjálfsmyndir og „inngöngu“ í hópa er í mótsögn við lýðræði og menningu fjölbreytileikans, jafnvel innan samfélaga eða samfélagshópa.

  • Fastmótuð hópviðhorf standa í vegi fyrir framþróun

    Þegar við ölumst upp í fastmótuðum hópviðhorfum þar sem „við“ erum í andstöðu við „hina“ fær hvorki sá sem tilheyrir hópnum né sá sem er settur utan hans tækifæri til að þroska sína eigin sjálfsmynd og taka þátt í samfélaginu á eigin forsendum – eins og hann er. Ef við lítum á þetta „ég“ sem andstöðuna við þetta fjandsamlega, hættulega og ljóta sem er „hinn“ þá neyðumst við til að halda í upplifun okkar af „hinum“ til að viðhalda okkar eigin sjálfsmynd.

    Þetta kemur skýrt fram í rannsóknum á andúð á milli hópa og er m.a. fallað um í skýrslunni Intolerance, Prejudice and Discrimination. A European report (2011): Það er beint samband á milli þess að þurfa á óvinarímynd að halda og þess að hafa þörf fyrir sjálfsupphafningu og að línur séu skýrar og „hreinar“ hvað varðar sjálfsmynd og aðild að hópum. Að sjálfsögðu geta hugmyndir um hópsjálfsmynd og þá tilfinningu að maður tilheyri hópi verið réttmætar, áhrifaríkar og nauðsynlegar þegar einstaklingur reynir að finna sér samastað í flókinni tilveru. Samt er nauðsynlegt að geta ígrundað þessar hugmyndir og aðlagað þær, einmitt vegna þess hve tilveran er flókin.

    Fjölbreytileiki er hvorki ógnun né eitthvað sem á að hafa sérstaklega í hávegum; fjölbreytileiki er staðreynd sem við þurfum öll að fást stöðugt við með einum eða öðrum hætti.

    Í forvarnarstarfi gegn kynþáttafordómum, gyðingahatri og annars konar andúð á tilteknum hópum er nauðsynlegt að draga í efa fastmótaðar og útilokandi hugmyndir um sjálfsmynd og aðild að hópum. Tilgangurinn með því er hins vegar ekki aðeins að varpa ljósi á það hversu óæskileg fordómafull hegðun er. Mikilvægt er að beina sjónum að öðrum jákvæðum leiðum í staðinn og skapa svigrúm fyrir þær: Fjölbreytileiki er hvorki ógnun né eitthvað sem á að hafa sérstaklega í hávegum; fjölbreytileiki er staðreynd sem við þurfum öll að fást stöðugt við með einum eða öðrum hætti. Það felst áskorun og óvissa í fjölbreytileikanum og hann getur jafnvel valdið hugarangri. En það sem er enn mikilvægara: Fjölbreytileikinn gefur okkur færi á að þroskast sem manneskjur, án þess að vera læst inn í fastmótaðar hugmyndir um okkur sjálf og „hina“.

  • Ígrundun um eigin sjálfsmynd

    Í bókinni „Stranger to Ourselves“ frá árinu 1991 skrifar Julia Kristeva:

    Strangely, the foreigner lives within us: he is the hidden face of our identity, […] By recognizing him within ourselves, we are spared detesting him in himself. A symptom that precisely turns “we” into a problem, perhaps makes it impossible, the foreigner comes in when the consciousness of my difference arises, and he disappears when we all acknowledge ourselves as foreigners, unnameable to bounds and communities. (bls. 1)

    Hér heldur hún því fram að manneskjunni sé nauðsynlegt að vera opin fyrir sjálfsígrundun, sjálfsgagnrýni og ýmsu óvæntu hvað varðar eigin innra líf og sjálfsmynd. Markmiðið er að við getum:

    • skoðað sjálf okkur utan frá
    • sætt okkur við að sumir þættir í okkar fari eru heppilegri en aðrir
    • notað eigin tilvist til að takast á við hið óþekkta og það sem veldur óvissu

    Þessi orð hljóma kannski eins og háfleygar heimspekivangaveltur, en staðreyndin er sú að þetta er hluti af hversdagslegum veruleika okkar. Við sköpum okkur venjur í umgengni við sjálf okkur, rétt eins og í umgengni við aðra. Þessum venjum er hins vegar hægt að breyta.

    Sjálfsmynd okkar krefst þess að við séum ókunnug okkur sjálfum. (Julia Kristeva)

    Í forvarnarstarfi er einkar mikilvægt að skoða hvernig það að horfast í augu við eigin vankanta getur auðveldað okkur að vinna í þessum vanköntum með því að aðlaga viðhorf okkar, tilfinningar, hugsanir og hegðun.

    Hér má nefna eftirfarandi dæmi: Líklega fyrirfinnst ekki sú manneskja í þessum heimi sem ekki býr yfir fordómum af einhverju tagi. En það þýðir ekki að við eigum að sætta okkur við eigin fordóma. Þvert á móti. Vandinn snýst ekki aðeins um þá einstaklinga sem eru „rasistar“ eða „gyðingahatarar“ á grunni tiltekinnar hugmyndafræði; allir fordómar eiga sinn þátt í því að auka óeiningu og útiloka fólk. Því er okkar áskorun fólgin í því að sætta okkur ekki við þessa fordóma og líta á þá sem eðlilegan hlut, heldur leitast við að vinna úr þeim; að aðlaga þá til að draga úr útilokandi áhrifum þeirra.

    Sálræn varnarkerfi okkar bregðast við með frávarpi þegar „hinir“ búa yfir sömu neikvæðu innri þáttum og við viljum ekki kannast við eða getum ekki viðurkennt að búi í sjálfum okkur og í okkar samfélagi. Við missum getuna til sjálfsgagnrýni – og til að geta viðhaldið fullkominni ímynd af „mér/okkur“ þurfum við í auknum mæli að líta á „hina“ sem „andstæðu“ við okkur. Þannig verður til vítahringur sem hefur alvarlegar afleiðingar.

    Með því að ígrunda eigin sjálfsmynd getum við komið auga á það hvernig hópahugarfar virkar og dregið úr áhrifum þess.

    Okkar eigin geta til að ígrunda bæði okkur sjálf og sjálfsmynd okkar getur varpað ljósi á það hvernig hópahugarfar virkar og dregið úr áhrifum þess. Með því að finna nýjar aðferðir við að mynda okkur skoðanir og öðlast sjálfsþekkingu getum við myndað varnarkerfi gegn harkalegu frávarpi þegar það birtist sem fordómar og andúð á tilteknum hópum.

    Höfundur: Claudia Lenz

  • Bókmenntir

    Brubaker, Rogers, Cooper, Frederick (2000). «Beyond ‘Identity’», in Theory and Society 29.

    Bråten, Stein. (2000) «Modellmakt og altersentriske spedbarn.» Sigma Forlag, Søreidgrend.

    Døving, Cora Alexa. (2010). Anti-Semitism and Islamophobia: A comparison of Imposed Group Identities. Tidsskrift for Islamforskning, (2).

    Dewey, John (1910). How we think. Boston: D.C. Heath & CO. Publishers.

    Hall Stuart (2000). ”Who needs Identity”, in du Gay, P., Evans, J. and Redman, P. (eds), Identity: a Reader, IDE: Sage.

    Helseth, Hannah (2007). «Kunnskapsstatus om kjønnsrelatert mobbing blant barn og unge.» Høgskolen i Nesna.

    Henriksen, Holger. (1993) Samtalens mulighed – bidrag til en demokratisk didaktik. Holger Henriksens forlag, Haderslev.

    Huber, Joseph (red.) (2012). «Intercultural competence for all. Preparation for living in a heterogeneous world.»Pestalozzi series No. 2. Council of Europe Publishing.

    Kartlegging av kunnskaper og holdninger på området rasisme og antisemittisme. Undersøkelse blant elever (trinn 8-10) i osloskolen gjennomført for Utdanningsetaten i Oslo. Perduco: 2011.

    Kristeva, Julia (1991). Strangers to Ourselves. New York: Columbia University Press.

    Schulz, Wolfram m.fl. (2009): Civic knowledge, attitudes, and engagement among lowersecondary school students in 38 countries, ICCS International Report.

    Slåtten, Hilde, Norman Andersen og Ingrid Holsen (2009). «Nei til ”Homo!” og ”Hore!” i ungdomsskulen: Lærarrettleiing om førebygging og handtering av kjønnsrelatert mobbing, homofobisk erting og seksuell trakassering.» Hemil-senteret, Bergen.

    Slåtten, Hilde (2016). «Gay-related name-calling among young adolescents: exploring the importance of the context.», Universitetet i Bergen.

Undervisningsopplegg