Hugtakið „sjálfsmynd“ er veigamikið og gildishlaðið; fólk hefur ólíkar og stundum andstæðar skoðanir á því hvað sjálfsmynd felur í sér. Einn algengur skilningur er sá að sjálfsmynd sé „að vera maður sjálfur yfir lengri tíma“. Í þeim skilningi er sjálfsmynd eitthvað stöðugt og kunnuglegt og hugtakið er bæði hægt að nota yfir einstaklinga og hópa.
Er sjálfsmyndin fasti eða er hún breytileg?
Hugmyndir um sjálfsmynd sem eitthvað stöðugt yfir lengri tíma er hægt að túlka á ólíkan hátt. Slíkar hugmyndir gera ráð fyrir föstum eða óbreytanlegum kjarna sem er óháður ytri áhrifum. Hugmyndir sem gera ráð fyrir því að sjálfsmyndin sé breytileg ganga út frá því að einstaklingurinn þroskist og þróist og verði fyrir ytri áhrifum.
Í hugmyndinni um hópsjálfsmynd er gert ráð fyrir því að margir einstaklingar deili vissum eiginleikum sem tengja þá saman.
Á milli þessara tveggja hugmynda er að finna ólík stig og snertifleti. En þegar sjálfsmyndarhugtakið er notað yfir hópa hefur munurinn á milli þessara ólíku hugmynda töluverðar afleiðingar í för með sér. Í hugmyndinni um hópsjálfsmynd er gert ráð fyrir því að margir einstaklingar deili sömu eiginleikunum sem tengja þá saman og skapa með þeim einingu og þá tilfinningu að þeir tilheyri sama hópnum. Þetta vekur þá spurningu hvort hópsjálfsmyndin byggi á meðfæddum eiginleikum (t.d. þjóðerni), eiginleikum sem teljast stöðugir yfir lengri tíma (t.d. sameiginlegar hefðir) eða jafnvel opnari flokkum á borð við sameiginleg áhugamál og starfsgreinar (t.d. faghópar í tilteknum atvinnugreinum).
Það má því segja að skilningur okkar á sjálfsmynd geti bæði tengst hugmyndum okkar um sjálfsmynd sem fasta eða breytilega einingu. Þetta er afar mikilvægt þegar skoðaðar eru hugmyndir okkar um einingu og um það að tilheyra hópi. Ef skilyrðin fyrir því að tilheyra „okkar“ hópi byggjast á lífræðilegum eiginleikum eða áunnum og rótgrónum hefðum verður mjög erfitt fyrir nýja einstaklinga að verða hluti af hópnum.
Cora Alexa Døving heldur því fram að „óþétt sjálfsmynd“ byggi á þáttum sem fólk með ólíkan bagrunn getur deilt eða sammælst um, en í „þéttri sjálfsmynd“ sameinist einstaklingarnir um þætti sem eru þeim meðfæddir eða þeir hafa „erft“ frá samfélaginu. Samkvæmt Døving er óþétt sjálfsmynd mun opnari á meðan meiri útilokun á sér stað með þétt sjálfsmynd.